gmshapir_thumb
Gerald Saphiro

Ég kynntist hinu virta íslenska tónskáldi Atla Heimi Sveinssyni í Voyages tónleikaferð í Bandaríkjunum sl. haust. Mér vildi það til happs að við Atli Heimir ókum saman frá Washington til New York. Þegar ég síðan heimsótti Ísland fyrir tveimur mánuðum var hann svo vinsamlegur að vera leiðsögumaður minn á skoðunarferð um landið.

Það er ekki hægt að finna betri ferðafélaga en Atla Heimi. Hann er hrífandi, félagslyndur og orðheppinn á þægilegan máta, þó þar leynist stundum háð. Athygli hans og ákafi eru síbreytileg og hjá Atla Heimi fijúga hugmyndir og sögur hjá í takt við hraða bílsins.

Sé honum látið eftir að ráða för samræðanna getur hann vísvitandi haldið uppi eintali, hér um bil án afláts. Um leið og ferðafélagar Atla Heimis mæla síðan, þagnar hann og hlustar af slíkum áhuga að það getur sett fólk út af laginu.

Þegar ég var beðinn að skrifa stutta kynningu á Atla Heimi og tónlist hans brást ég við með því að setja saman brot minninga af ferðum okkar saman.

Þegar við ökum til New Jersey ræðir Atli Heimir um tónlist. Tónlist sem hann hefur samið, tónlist sem hann var að semja á þeim tíma, tónlist sem hann ætlar sér að semja og tónlist annarra. Náin tengsl hans við hljóma eru augljós. Þegar Atli Heimir lýsir tónverki verður hlustandanum ljóst að hann er að lýsa einhverju sem er honum mjög svo raunverulegt. Hlut sem er áþreifanlegur eyranu á sama hátt og vatn er fingrum.

Þessi áþreifanleiki kemur skýrt fram í tónlist Atla Heimis. Hún býr yfir þeim eiginleikum sem tónskáld nefna „vel hljómandi”, sem þýðir að Atli Heimir sér tónana nákvæmlega fyrir sér við samningu hvers tónverks. Lesandi kann að spyrja hvort öll tónskáld þurfi ekki að búa yfir þessari getu? Líkist hún ekki teiknigetu listamannsins? Að vissu leyti má segja að svo sé. Við öll – bæði tónskáld og myndlistarmenn – gerum okkar besta til að ná hugmyndinni ljóslifandi fram. Þetta er eitt af grundvallaratriðum góðs listaverks, þó það nægi ekki eitt sér. Sum okkar eru þó bara fær um að ná útlínum þessara hugmynda, á meðan tónlist Atla Heimis nær fullkominni nálægð við hugmyndir hans og er sem slík sönn ánægja á að hlýða.

Við förum til Þingvalla og ökum umhverfis vatnið. Þó nú sé síðla aprílmánaðar er hráslagalegt úti fyrir. Tóftir fornra húsa gægjast í gegnum slydduna, en þrátt fyrir það er Atli Heimir í góðu skapi. „Sjáðu, þarna er refur – enn í vetrarfeldi sínum.” Gleði hans er mikil og barnsleg.

Ég minnist þess skyndilega er við ókum eftir þjóðvegi nokkrum í Bandaríkjunum, það kann að hafa verið í Maryland, eða e.t.v. Delaware. Áður en ég kynntist Atla Heimi sjálfum var ég einungis kunnur einu tónverki hans, „Dal Regno del Silenzio,” sem var samið fyrir selló. Þegar ég heyrði þetta verk fyrst fyrir nokkrum árum náði það tökum á mér þannig að ég hlustaði á það aftur og aftur. Þetta verk er í senn dapurlegt og sérlega áhrifamikið. Þögn titilsins er þungamiðja verksins sjálfs. Það snerti einhverjar taugar í mér.

Skyndilega segir Atli Heimir eitthvað sem minnir mig á verkið, en ég hafði ekki hugsað um það a.m.k. í tvö ár. Ég reyni að segja honum að tónlist hans sé mér einhvers virði, en hann gerir lítið úr því af einskærri hógværð. Nú get ég séð glitta í vissan alvarleika, jafnvel svolítinn dapurleik, í þeirri þögn sem myndast í annars glaðlegu eintali hans.

Við erum staddir nærri ströndinni. Það er 1. maí og erfitt að finna opinn veitingastað. Atli Heimir, sem hinn sanni gestgjafi, hefur hins vegar pantað borð fyrirfram.

Atli Heimir er sannur menntamaður og sannarlega fjölfróður. Fjölbreytni hans og ástríða á hugðarefnum sínum er ótrúleg og samt eru kröfur hans sjálfs svo litlar. Hann talar um að finna sér kyrrlátari stað til að lesa og semja tónlist og líkt og áður eru áform hans margvísleg: Ísland, Ohio, Prag?

„Við erum svo heppnir,” segir hann og finnur af örlæti sínu rúm fyrir mig í hugarheimi sínum. „Allt sem við þurfum á að halda eru nokkrar bækur, kyrrlátur staður og við erum fullkomlega hamingjusamir.”

Hann ræðir um tónlistarmenn og mér virðist sem Atli Heimir hafi þekkt persónulega hvern einasta markverða evrópska og bandaríska tónlistarmann sl. 50 ára. Heilu fjölskyldur tónlistarmanna, kynslóðir og tónlistarstefnur allt frá Vín til Parísar og Sao Paulo.

Mikilsvirtur tónlistarfræðingur við háskólann minn, sem fæddur var í Ungverjalandi, sagði eitt sinn við mig með kankvíst bros Mið-Evrópubúa á vör: „Að vera sagnfræðingur er að vera vel að sér í gömlum kjaftasögum.” Þannig er Atli Heimir.

Þegar við ökum í gegnum göng á leið til New York ræðir Atli Heimir um verk mitt fyrir Voyages tónleikaferðina. Skynjun hans er svo næm, svo nákvæm. Hann veit nákvæmlega hvað er rétt og hvað þarfnast frekari vinnu. Hve gaman það væri að hafa hann fyrir tónsmíðakennara.

Verk Atla Heimis fyrir tónleikaferðina nefnist Dolorosa. Þetta er annað dapurlegt verk, ekki ólíkt sellóverkinu að sumu leyti. Það er fullt af þögn sem ristir dýpra en hljóðin sem hana umkringir. Þessi tónlist byggir á einfaldleika, ekki í líkingu við einfaldleika „New York Repetitious School”, heldur hefur hér allt nema nauðsynlegustu frumþættir verið þurrkað út þannig að eftir stendur átakamikill kjarninn… sterkasta tjáningin.

Atli Heimir andvarpar þegar við ökum inn í illa viðhaldið úthverfi Manhattan en hressist síðan aftur og fer að vísa mér leiðina að íbúð vinar hans þar sem leiðir okkar skiljast. Hann ræðir um dvöl sína í New York, vinina sem hann heimsækir, veitingastaðina, bókabúðirnar og söfnin. Hann segir að við munum hittast fljótlega aftur og ég vona að svo verði.

Gerald Shapiro í tilefni tónskáldaþings á hátíðinni Menning og náttúruauðæfi í Grindavík. Morgunblaðið, júní 2000.

Leave a Reply