alheimur

eftir Atla Ingólfsson – inngangur að prógramnótum fyrir diskinn I Call it – 2015

“Truth, time, dreams / billion masses / big dimensions…” segir í kvæði Þórðar Ben Sveinssonar I Call It.  Sá sem þekkir til Atla Heimis Sveinssonar undrast ekki að þau orð hafi gripið hann.  Rætt er um óravíddir – stundum er eins og Atli gangi með alheiminn innra með sér, einhverja vídd sem öðru hverju hleypur fram og verður að tónlist.  Hvaðan kemur annars þessi mikilfenglega handanþrá sem býr svo oft í verkunum; þessi leit að stærð sem birtist í umfangi, lengd eða inntaki þeirra; og rúmtak formsins sem gjarnan er handan við mannlegan kvarða?

Hugljómun, það er lykilorð í höfundarverki Atla Heimis Sveinssonar, sem þýðir að höft eru það ekki.  Það gilda engin lög nema hin skáldlega nauðsyn, svo einfalt er það.  Svo einfalt að margir misskildu höfundinn, héldu að hann legði sig eftir frumleika – jafnvel hneyksli.  Jú, einhverjir hneyksluðust, einkum framan af meðan ný tónlist var fáheyrð í landinu.  Í verkunum var þó ekkert hneykslanlegra en í nýrri tónlist annarra landa.  Frumleikinn var hvorki meiri né minni en sérhverju nýju tónverki var talinn hæfa á þeim tíma.

Og hvaða tónlist hljómaði annars staðar vissi Atli betur en margir.  Hann er forvitinn, lifir sig gjarnan inn í helstu listastefnur samtímans og tekur afstöðu.  Verk hans eru svo jafnvel viðbrögð við hugmyndum sem gerjast erlendis:  Að vera skáld er að verða fyrir áhrifum.  Finna má tónaglósur um móment-form Stockhausens, ameríska mínímalismann, slembiform Maderna, collage verk Pousseurs eða virtúósisma Berios í verkum hans.  Uppskeran er þá hans eigið sjónarhorn á þessar uppfinningar og sannarlega engin rótlaus leit að frumleika umfram allt og ekki að hneyksli.

Engin höft sögðum við, ekki heldur þau sem felast í hugmyndinni um stíl: Framsækið tónmál hefur aldrei verið trúarsetning fyrir Atla Heimi Sveinssyni.  Hann viðhefur þau efnistök sem hugmyndin krefst hverju sinni og í verkunum má finna jafnt tónklasa og raðir sem rómantískar laglínur og slagara.  Viðfangsefni skáldsins er handan aðferðanna. Straumar og stefnur, aðferðir og tækni, þetta er endurvarp sköpunaraflsins, ekki forsendur þess. Þetta hefur alla tíð verið ljóst og blasir við í þeirri næstum óþægilegu hreinskiptni sem einkennir viðhorf höfundarins til vinnunnar.  “Þetta átti einfaldlega að vera svona” gæti hann sagt.  “Er það framsækið? Rómantískt? Barnslegt? Ofvaxið? Hneykslanlegt? Gamaldags? Fyndið?  Skiptir mig engu” svo við leggjum honum orð í munn, eða jafnvel: “Mér datt ekkert í hug og þess vegna samdi ég þetta,” svo vitnað sé í orð hans um gáskafullan tónkviðling.  Þar með leggur hann engar skoðanir að veði, aðeins sjálfan sig…slíkt hefur raunar af og til ofboðið mönnum: “Hér skálda ég og get ekki annað”.

Leave a Reply