Erum að bjarga verðmætum

Opnaður hefur verið vefur til heiðurs Atla Heimi Sveinssyni tónskáldi þar sem birtar eru upplýsingar um öll verk hans, feril og skrif.

Þegar farið var að rannsaka málið kom í ljós að hálft ævistarf Atla Heimis lá inni í skápum og kjallara. Stór hluti þessara verka hafði aldrei verið gefinn út, en markmið okkar er að skrá öll þessi verk m.a. með upplýsingum um hljóðfæraskipan og gera þau aðgengileg í tölvutæku formi,« segir Áshildur Haraldsdóttir, flautuleikari og varaformaður Hollvinasamtaka Atla Heimis Sveinssonar tónskálds.

Áshildur er jafnframt ritstjóri og hönnuður heimasíðunnar atliheimirsveinsson.is sem nýverið var opnuð. Þar má finna ítarlega skrá yfir verk Atla Heimis með tengla yfir á vef Tónverkamiðstöðvar og danska nótnaútgefandans Wilhelms Hansens þar sem hægt er að kaupa nóturnar, upplýsingar um feril, yfirlit yfir útgefna diska með tóndæmum, myndir, fræðigreinar sem Atli Heimir hefur skrifað um verk sín og annarra sem og greinar eftir aðra um tónskáldið, bæði á íslensku og ensku, m.a. doktorsritgerð Sóleyjar Þrastardóttur, flautuleikara frá Univeristy of Oklahoma, um verk hans.

Skipulagður maður

hollvinasamtok
Tui Hirv, Atli Heimir Sveinsson, Áshildur Haraldsdóttir, Kristín Sveinbjarnardóttir og Sigurður Ingvi Snorrason á heimili tónskáldsins.

»Tilgangur félagsins var að halda utan um höfundarverk Atla Heimis, þ.e. lífsstarf hans, en hann hefur samið gífurlega mikið af tónverkum. Við vildum sjá til þess að þetta væri allt skráð og aðgengilegt fólki úti um allan heim í tölvutæku formi,« segir Sigurður Ingvi Snorrason, klarinettuleikari og formaður Hollvinasamtaka Atla Heimis. Aðspurður segir hann samtökin hafa verið stofnuð fyrir um tveimur árum. »Það voru æskuvinir og bekkjarfélagar Atla sem höfðu frumkvæði að stofnun félagsins, en þessir æskufélagar eru Styrmir Gunnarsson, Ragnar Arnalds og Halldór Blöndal,« segir Sigurður.

Bæði formaður og varaformaður Hollvinasamtakanna hafa starfað með Atla Heimi árum saman. »Atli Heimir kenndi mér á píanó í Tónlistarskólanum í Reykjavík fyrir rúmum fimmtíu árum áður en ég fór til náms í Vínarborg aðeins 17 ára gamall. Allar götur síðan þá höfum við verið nánir vinir og ég hef tekið þátt í að flytja mörg verka hans,« rifjar Sigurður upp fyrir blaðamanni.

Að sögn Sigurðar hafa samtökin aflað styrkja til að ráða einstakling til að halda utan um skrásetninguna, en fleiri sjálfboðaliðar hafi komið að verkinu. »Við fengum eistnesku söngkonuna og tónlistarfræðinginn Tui Hirv til að halda utan um skráninguna, sem unnin er í nánu samstarfi við Atla Heimi á heimili hans. Tui er stórkostlegur starfsmaður, sem hefur allt í senn verið bókasafnsfræðingur, tónlistarfræðingur og aðstoðarkona Atla Heimis við skrásetninguna,« segir Áshildur og bendir á að Atli Heimir hafi alla tíð unnið mjög hratt og verið virkur sem tónskáld og kennari samhliða ýmissi stjórnarsetu og frumkvöðlastarfi, en hann kom að stofnun Myrkra músíkdaga á sínum tíma. Hann hafi því ekki haft nægan tíma til að sinna skráningu verka sinna í gegnum árin.

»Það er heilmikil vinna að skrá öll verkin, því taka þarf hvert og eitt verk fyrir sig. Sum þeirra eru til í alls kyns gerðum, t.d. útsett fyrir fá hljóðfæri, fleiri hljóðfæri, kammersveit og hljómsveit. Eitt verk getur því kallað á mörg margar færslur, því skrá þarf hver hljóðfæraskipanin er,« segir Sigurður og tekur fram að hann vonist til þess að skrásetningunni ljúki á þessu ári. »Þó enn sé talsverð skrásetningarvinna eftir er nú þegar komin góð yfirsýn yfir höfundarverk hans.«

Meðal þeirra sem að starfinu hafa komið eru Borgar Magnason, kontrabassaleikari og tónskáld, og Kristín Sveinbjarnardóttir, sem um árabil starfaði hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenskri tónverkamiðstöð. »Segja má að Borgar hafi lagt línurnar í skrásetningarvinnunni. Kristín er einn af stofnfélögum Hollvinasamtakanna og hefur unnið mikið sjálfboðastarf sl. tvö ár,« segir Sigurður og Áshildur bætir við: »Kristín kemur eins og engill annað slagið og er að fletta möppum og koma skikki á hlutina,« segir Áshildur og veltir fyrir sér hversu mörg tónverk til viðbótar Atli Heimir hefði getað skrifað um ævina hefði hann haft aðstoðarmanneskju sér við hlið stóran hluta ferils síns. »Þess ber þó að geta að Atli Heimir er skipulagður maður og verkin voru geymd í stórum litríkum möppum sem fylltu m.a. þrjár stórar bókahillur,« segir Áshildur og undir þetta tekur Sigurður: »Atli Heimir hefur haldið gríðarlega vel utan um hlutina. Það er engin óreiða. Þetta er bara svo mikið magn og þess vegna mikil vinna að skrásetja þetta allt.«

Heildarsýnin komin

»Eftir að rannsóknarvinnan hófst kom upp úr dúrnum, eitthvað sem engan hafði grunað, að mjög stór hluti ævistarfsins er óútgefinn,« segir Áshildur og bendir á að útgefin verk Atla Heimis séu um 422 meðan óútgefin verk séu um 200. »Markmið okkar er að gera þessi 200 verk aðgengileg og í framhaldinu langar okkur að halda tónleika með óútgefnum verkum. Allt er þetta hins vegar háð fjármagni,« segir Áshildur. Undir þetta tekur Sigurður. »Okkur hefur gengið ágætlega að afla fjár frá bæði einstaklingum og fyrirtækjum, en það kostar mikla vinnu og peninga að tölvusetja öll tónverk Atla Heimis. Sem stendur er skrásetningin samt aðalatriði, því þá er hægt að koma tæmandi upplýsingum um verkin fyrir á heimasíðunni svo við fáum heildarsýn yfir allt höfundarverk Atla Heimis,« segir Sigurður.

Verkin hefðu getað glatast

»Það er engin stofnun á Íslandi sem hefur bolmagn til að fara í svo viðamikið starf líkt og unnið hefur verið á vegum Hollvinasamtakanna á síðustu misserum. Markmið okkar er ekki aðeins að koma skikki á öll verkin og skrá þau heldur einnig að koma þeim í geymslu á öruggum stað á borð við Landsbókasafnið, þannig að framtíðar flytjendur, hlustendur og fræðimenn geti gengið að þessu á vísum stað,« segir Áshildur og tekur fram að hún megi ekki hugsa til þess hversu mikil menningarverðmæti hefðu getað glatast ef sprungið hefði rör eða kviknað í. »Starfið sem farið hefur fram á heimili Atla Heimis í Vesturbænum í allt sumar er mjög sérstakt, en líkja má vinnu hópsins við fjársjóðauppgröft þar sem við erum að bjarga verðmætum í hús,« segir Áshildur.

Einstakur grafíker

Að sögn Sigurðar dreymir Hollvinasamtökin um að hægt verði að flytja fleiri verk Atla Heimis, ekki síst áður óútgefin verk. »Í framtíðinni viljum við gjarnan sjá fleiri verk Atla Heimis flutt hérlendis. Í því sambandi má nefna verkið Tíminn og vatnið sem er stór ballett sem Atli Heimir samdi við ljóð Steins Steinars. Kammersveit Reykjavíkur frumflutti verkið á Listahátíð í Reykjavík árið 1994 undir stjórn Pauls Zukofsky, en upptaka af flutningnum kom út á geisladiski árið 2002,« segir Sigurður sem tók þátt í frumflutningi verksins og upptöku. »Verkið var upphaflega samið sem ballett, en það hefur aldrei verið dansað við það – sem væri auðvitað gaman.«

Sigurður bendir á að hollvinina langi einnig að halda sýningu á nótnaskrift Atla Heimis. »Atli Heimir hefur gífurlega fallega nótnarithönd, þannig að það er mjög auðvelt að lesa nótur hans. Hann er einstakur grafíker, það hefur komið til tals að halda sýningu á grafíkinni hans. Það er eitt af því sem við látum okkur dreyma um. Það er hreinn unaður að sjá mörg verka hans, en í því samhengi má nefna nóturnar að verkinu »Xantis fyrir flautu og píanó« sem Atli Heimir samdi fyrir Manuelu Wiesler flautuleikara og Snorri Sigfús Birgisson,« segir Sigurður og rifjar upp að þau hafi flutt verkið við verðlaunaafhendinguna í Kaupmannahöfn þegar Atli Heimir tók við Tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs árið 1976.

„Óskaplega glaður“

„Ég er auðvitað óskaplega glaður að fólk skuli hafa áhuga á þeirri músík sem ég hef verið að reyna aðgera,“ segir Atli Heimir Sveinsson tónskáld inntureftir starfi hollvinasamtakanna sem kennd eru við hann. Spurður hvort það hafi komið sér á óvart að hollvinasamtökin hafi verið stofnuð svarar Atli Heimir: „Bæði og. Frumkvæðið kom ekki frá mér. Þegar haft var samband við mig kom það mér ísjálfu sér ekki mikið á óvart, enda þekki ég sumt af þessu fólki afskaplega vel,“ segir Atli Heimir og nefnir í því samhengi Áshildi Haraldsdóttur, varaformannsamtakanna og flautuleikari, sem í gegnum tíðina hefur flutt fjölda verka hans. Aðspurður segist hann ekki hafa nákvæma tölu yfir fjölda verka sinna, en efast um að það geti staðist að enn séu um 200 verk óútgefin. „það kunna að leynast flarna skissur af einhverjum verkum. Ég trúi því ekki að ég hafi gert rúmlega fjögur hundru› verk og tvö hundruð að auki,“ segirAtli Heimir og ítrekar að hann hafi ekki haft nákvæmt yfirlit yfir verkin. „Aðalmálið var að koma verkunum frá sér, en ekki flokka þau. Áhuginn og orkan fór öllu í sköpunina.“ Atli Heimir segist afar ánægður með samstarfið við Tui Hirv, enda sé hún mjög vel menntuð og mikil nákvæmnismanneskja. „Ég hef ekki mikið gert af því að halda verkunum saman á einum sta›,“ segir Atli Heimir þegar hann er inntur eftir því hvort verk hans hafi leynst víða á heimili hans í Vesturbænum. „Maður hefur stungi› flessu ofan í einhverjar skúffur og annað inni í íbúðinni, auk fless sem sumt hefur ratað ofan í kjallara,“ segir Atli Heimir og hlær.Spurður um litríku möppurnar segist Atli Heimir stundum hafa gaman af flví að skreyta og lita fyrstu síðu verka sinna. Vill hann sem minnst gera úr því að hann sé drátthagur. „En ég hef gaman af því að fást við liti og hef góða skemmtun afþví.“ Að sögn Atla Heimis er hann alltaf með einhver tónverk í smíðum hverju sinni. „Bæði er ég að endursko›a eldri verk og með hugmyndir að einhverju nýju líka,“ segir Atli Heimir og tekur fram að hann hafi ekki tekið við neinum pöntunum nokkuð lengi. „Ég þarf að hafa frið til að gera það sem mig langar til að gera.“

Silja Björk Huldudóttir MBL september 2016

Leave a Reply