Atli Heimir Sveinsson (21. september 1938 – 20. apríl 2019) fæddist í Reykjavík. Á æskuheimili hans var tónlist í hávegum höfð og níu ára gamall hóf hann tónlistarnám í Barnamúsikskóla Dr. Heinz Edelsteins og ári seinna í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Aðalkennari hans í píanóleik þar næstu árin var Rögnvaldur Sigurjónsson. Jafnfram þessu var Atli í Menntaskólanum í Reykjavík og lauk stúdentsprófi árið 1958. Hann fór síðan til Þýskalands og stundaði nám í tónsmíðum, píanóleik og hljómsveitarstjórn við Staatliche Hochschule für Musik í Köln. Meðal kennara hans má nefna Günter Raphael, Rudolf Petzold, Bernd Alois Zimmermann og Gottfried Michael König. Atli tók lokapróf (Künstlerische Reifeprüfung)í tónsmíðum og tónfræði árið 1963. Atli sótti sumarnámskeiðin í Darmstadt á þessum árum og árið 1963 tók hann þátt í Kölner Kurse für neue Musik hjá Karlheinz Stockhausen er þeir voru haldnir í fyrsta sinn. Ári síðar dvaldi Atli ár í Hollandi og nam í raftónlist hjá Gottfried Michael König.
Að loknu námi hefur Atli búið í Reykjavík.
Atli hefur samið tíu einleikskonserta, sex sinfóníur, lagt drög að þeim sjöundu og áttundu og á að auki önnur hljómsveitarverk. Þá hefur Atli samið margvísleg einleiks- og kammerverk, sönglög og ýmsa tækifæristónlist. Þá má nefna hljómsveitarverkin Tengsl, Flower shower og Hreinn/Súm, Nóttin á herðum okkar, við ljóð eftir Jón Óskar, og Icerapp 2000 sem samið var fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og flutt 15 sinnum á tónleikaferðalagi í Bandaríkjunum árið 2000.
Atli hefur samið 5 óperur. Silkitromman var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu árið 1980 og síðar á leiklistarhátíð í Venezuela. Sjónvarpsóperan Vikivaki var sýnd samtímis um öll Norðurlönd 1982. Tunglskinseyjan var frumsýnd í Bejing 1996 og síðar í sett upp í Þjóðleikhúsinu.
Kristnitakan, sem pöntuð var af Íslensku óperunni hefur ekki enn verið sýnd, og heldur ekki kammeróperan Hertervig.
Þá ber að nefna ballettóratóríuna Tímann og vatnið við ljóðabálk Steins Steinars sem frumflutt var á Listahátíð 1997.
Atli vann mikið í leikhúsum og samdi þar margvíslega tónlist. Má þar nefna Dimmalimm, Dansleik, Ofvitann, Ég er gull og gersemi, Sjálfstætt fólk, Mýrarljós og söngleikinn Land míns föður, sem gekk 218 sinnum í Iðnó.
Atli kenndi tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík. Meðal nemenda hans má nefna Kjartan Ólafsson, Svein Lúðvík Björnsson, Hauk Tómasson og Atla Ingólfsson. Atli Heimir var gestaprófessor við Brown University 2002-2003. Þá flutti hann mjög vinsæla tónlistarsöguþætti í RÚV um árabil. Atli Heimir var staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2004-2007.
Atli var formaður Tónskáldafélags Íslands frá 1972-1983 og formaður Norræna tónskáldaráðsins 1974-1976. Hann skipulagði tónlistarhátíð og aðalfund hins alþjóðlega félags nútímatónlistar árið 1973 og Norræna músikdaga 1976. Þá stofnaði hann Myrka músikdaga árið 1980. Þessar hátíðir mörkuðu tímamót í íslensku tónlistarlífi og mynduðu ný tengsl milli Íslands og umheimsins.
Árið 1976 hlaut Atli Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs fyrstur Íslendinga, fyrir flautukonsert sinn. Árið 1978 hlaut hann síðan L’ordre du merite culturel frá Póllandi. Hann var kjörinn meðlimur í Konunglegu sænsku tónlistarakademíuna árið 1993. Hann naut heiðurslauna Alþingis. Atli hélt fyrirlestra við ýmsa háskóla víða um heim. Hann var gestakennari við CalArts í Los Angeles og Brownháskólann í Providence, Rohde Island.
Dr. Árni Heimir Ingólfsson segir svo um verk hans: “… Hann var óróaseggurinn í íslenskri tónsköpun á sjöunda og áttunda áratugnum, ef til vill sá eini í tónlistarsögu okkar sem á það fyllilega skilið að vera nefndir enfant terrible, en þess á milli sem hann hneykslaði íslenska smáborgara með brjáluðum tilraunaverkum yljaði hann þeim um hjartarætur með yndisfögrum laglínum sem enginn vildi vera án. Atli er óskammfleilið kamelljón í tónlistinni, bregður sér í líki Schuberts þegar hann semur lög við kvæði Jónasar Hallgrímssonar og Händels, þegar hann semur gamanaríur við kvæði íslenskra barokkskálda. Lag hans við Fuglakvæði Davíðs Stefánssonar kann hvers mannsbarn. Í grunninn er tónmál Atla þó meira í ætt við rómantískan expressjónisma, með sterkum mótsögnum og árekstrum sem knýja tónlistina áfram og gefa henni sífellt nýtt yfirbragð…”
Stutt ferilskrá
Atli Heimir (21. september 1938 – 20. apríl 2019) í Reykjavík og ólst þar upp. Hann stundaði nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík, og lauk lokaprófi í tónsmíðum og tónfræði frá Staatliche Hochschule für Musik í Köln 1963, nam raftónlist við Raftónverið í Bilthoven í Hollandi 1964 og sótti Kölner Kurse für neue Musik 1965.
Atli var kennari í tónsmíðum og tónfræðum við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann var einnig gestaprófessor við Brown University. Þá annaðist hann vinsæla tónlistarþætti fyrir Rúv öðru hverju um árabil. Atli Heimir var staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2004-2007.
Atli var formaður Tónskáldafélags íslands 1972-83, formaður Norræna tónskáldaráðsins 1974-76, sat í stjórn Bandalags íslenskra listamanna um skeið, sat í stjórn listahátíðar, sat í dómnefnd International Society for Contemporary Music 1973, Norrænna músíkdaga 1974 og International Gaudeamus Competition 1978.
Atli hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlanda 1976 og L’ordre du merite culturel frá Póllandi 1978.
Atli var í hópi virtustu tónskálda hér á landi. Hann samdi fjölda tónverka, s.s. einleikskonserta, hljómsveitarverk, kammerverk og einleiksverk. Þá samdi hann einnig tónlist fyrir leikhús.