THOR VILHJÁLMSSON: Hugsað til Atla Heimis

Óður væri kannski vænni til að tæpa stutt á listtöfrum Atla og atgervi. Fjölhæfni hans er slík að á stundum jaðrar við fjölkynngi. Og lærdómurinn, sjálfsagi, leikni og hugvit og hjartalag gerir hann fleygan í lofti og láði. Flestir tónhættir fornir og nýir leika honum í höndum og höfði, með tilbrigðum, sem og líka finna og spinna, nýbreytni kvikast, allt frá óperum, sinfóníur, leikhústónlist margvísa og ýmsa; bagatellur og dívertímentí, tónaglettur, að spranga; sónötur og passakaglíur, fúgur og speglakanónur dýrast kveðið; hvaðeina og hvaðvetna.

AHSThor
Atli Heimir og Thor Vilhjálmsson

Jafnvel er honum samboðið að leggja lag sitt við sjálfan ljúfling okkar kærsta, Jónas Hallgrímsson, í réttri tónhæð og tillæti sem sómir báðum. Eða þá lag hans við Maríukvæði eftir Laxness, sem allir eru líka farnir að fara með, kveða bæði sér og sínum, kunna.

Óðfleygt verða ekki talin býsn þau mikil sem Atli Heimir hefur ort, skapað, og sumt smeygt í hjörtu okkur, og svo þrautofna og margfléttaða tónavefi rammbyggða sem laða til kennisleitar og grannt að nema og skyggnast. Svo margt þökkum við honum og fögnum kært, feginsglöð.

Atli Heimir er skemmtilegur, fyndinn: það þýðir fundvís– í tali sem tónum.

(Úr bæklingi geislandisksins Tónamínútur, 2006)

Leave a Reply