Loading...

„Ég fabúlera bara…“

Nokkur spor á tónlistarvegi Atla Heimis Sveinssonar eftir Göran Bergendal

 

Ég fabúlera bara...Atli Heimir „Tengsl hans við Ísland og hið íslenska eru margra vídda. Skólun hans á meginlandinu, alþjóðlegt tengslanet og sjónarhorn ver hann þröngsýni þjóðernisstefnunnar og sveitamannsins.“ — Morgunblaðið/Kristinn
Atli Heimir Sveinsson tónskáld verður sjötugur á morgun. Í tilefni af því verður efnt til tónleikaraðar sem hefst á morgun með dagskrá í Þjóðleikhúsinu kl. 16 um „leikhússperlur“ hans. Um kvöldið kl. 20.

Atli Heimir Sveinsson tónskáld verður sjötugur á morgun. Í tilefni af því verður efnt til tónleikaraðar sem hefst á morgun með dagskrá í Þjóðleikhúsinu kl. 16 um „leikhússperlur“ hans. Um kvöldið kl. 20.30 verða svo hátíðartónleikar í  Salnum í Kópavogi. Í þessari grein beinir höfundur sjónum sínum að ferli Atla Heimis, allt frá námsárunum til nýjustu verka.

Nú á þessu ári fagna tvö ástsælustu tónskáld Íslands sjötíu ára afmæli sínu. Þó að þeir Atli Heimir Sveinsson og Þorkell Sigurbjörnsson séu um margt ólíkir, hvað varðar stíl, lífssýn og skaplyndi, þá er það í mínum huga ekkert vafamál að það sem þeir hafa gefið af sér, listrænt, uppeldislega og í allri framgöngu sinni allt frá 1960 hvor um sig og báðir saman, liggur til grundvallar þeim listrænu hæðum, hinni alþjóðlegu meðvitund og hugsanlega hvað það er erfitt að skilgreina hið íslenska hjá ungum íslenskum tónlistarmönnum í dag. Báðir hafa ótakmarkaða sýn út í heiminn um leið og þeir miðla af auðmýkt og trúmennsku úr brunni þúsund ára menningar á Íslandi.

Ég minnist þess er ég fyrst kynntist tónlist Atla Heimis. Það var í Basel árið 1970 á stórri alþjóðlegri hátíð nútímatónlistar, báðir vorum við 32 ára gamlir.

Ég þekkti ekkert til Atla á þeim tíma. Hvað varðar íslenska nútímatónlist hafði ég aðeins heyrt stutt brot kammertónlistar eftir þá Leif Þórarinsson og Fjölni Stefánsson.

Atli var úfinn, hann hneykslaði samkomuna með ögrandi ólátaverki fyrir slagverk, tónband og ýmsa aukahluti. Verk þetta hét Spectacles. Þar var notuð hlátursvél, var eins konar gjörningur sem skráður var grafískt með hlægilegum skipunum, tillögum og frjálslegheitum. Spectalcles var kannski í anda samtímans, en varla er nú hægt að tala um að það hafi verið frumlegt.

Sem betur fer hafði Atli fleiri járn í eldinum.

Þetta sama ár samdi hann lag sem varð óhemju vinsælt, elskulegt og fallegt intermezzo úr barnaleikritinu Dimmalimm í Þjóðleikhúsinu svolítið í anda Carls Nielsens „Taagen letter“. Og þegar við nú horfum til baka yfir þessi fimmtíu ár af listsköpun þá er það í hinu víðáttumikla og mishæðótta landslagi milli Spectacles og Dimmalimm sem Atli hefur ferðast og samið alla hugsanlega tónlist, í mismunandi stílum, að magninu til umfangsmeiri en vitringarnir treysta sér til að tala um: óperur, óratoríur, sviðslistartónlist, sólókonsertar, strengjakvartettar, tríó, kórverk, söngvar, sónötur, píanótónlist, þjóðlagaútsetningar, og svo auðvitað allt það sem gamaldags tónskáld eiga að fást við. Og auk þess – nú þegar hann er farinn að eldast – leiki og ögranir fyrir sinfóníuhljómsveitir. Og röð af sinfóníum. Í þessari grein beini ég sjónum mínum að örfáum sporum – af mörgum mögulegum – á ferðinni gegnum tónlist Atla.

Fyrir ári sat ég í eldhúsinu heima hjá Atla. Við töluðum um þessa síðbúnu löngun hans að tjá sig í stórum sinfóníum. Nú þegar þetta er sett á prent er þegar búið að flytja fjórar af sex sinfóníum hans. Hvað er sinfónía? Sinfónía er eins og skáldsaga nítjándu aldar, sagði Atli, Victor Hugo og Vesalingar hans, Tolstoy með Stríð og frið og öll sagnalist Dostojevskijs þar sem margar sögur eru sagðar samhliða. Að sögn Atla hefur sinfónían mikið umfang, sama hvert formið er.

,,Ég bara fabúlera, ég konstrúera ekki að neinu viti.

Ég er nær Mahler en t.d. Síbelíus. Maður horfir til baka yfir líf sitt, allar sögur, samfélagið; sinfónían er eins konar kennslubókarágrip og heildaryfirlit yfir lífsreynsluna.“

Alveg eins og Mahler vill hann að allt eigi að rúmast í sinfóníunni, því einblínir hann ekki aðeins á hljómsveitina heldur dregur einnig inn einleik hljóðfæra, einsöngvara, kóra, popphljómsveitir og rafræna tónlist í sinfóníur sínar, og með því verða þær einskonar spegill ævistarfs hans.

Með því að nefna nafn Mahlers hvarflar hugurinn til námsáranna í Köln við upphaf sjöunda áratugarins. Þá naut Atli þess að hlýða á sinfóníur hans í flutningi sinfóníuhljómsveitar vesturþýska Ríkisútvarpsins þar sem til sögunnar komu stjórnendur eins og Dimitropoulos og Bruno Maderna.

En Kölnarborg – og svo Utrecht þar sem hann síðar nam rafræna tónlist – opnuðu honum fleiri mikilvægar gáttir.

Fyrir atbeina kennara sinna komst Atli í kynni við margs konar miðevrópsk menningaráhrif: eins og gamaldags húmanisma Gyðinga með kynnum af Günter Raphael, sagnfræðilega efnishyggju með kynnum af Bernd Alois Zimmerman og módernisma eftirstríðsáranna eftir tíma Antons Webern, persónugerður af Karlheinz Stockhausen. Íslendingurinn sté inn í evrópska menningariðu.

Til er heillandi heimild frá námsárum Atla, Impression opus 1 sem eru samsettir þættir frá 1961. Þeir eru samsettir eftir á fyrir hóp hljóðfæraleika eins og þeir tíðkuðust þá, með flautu, víólu, sellói og fjöldann allan af hljóðfærum sem gáfu hljómáhrif í lokin.

Sést hér gjörla hversu næmur hinn ungi tónsnillingur er – kjarninn í litrófi hans.

Hér sést ekki aðeins glitta í fyrirmyndir eins og Webern og Stockhausen, hér eru einnig rómantísk hughrif og skringileg glissandó sem bendir til mikilvægra þátta í hans eigin skapgerð. Hin skringilegu áhrif magnast síðan í píanóverkinu Mengi þar sem myndir og hljómar eru endurtekin í mörg hundruð skipti. Líkanið er að finna hjá Stockhausen Klaverstück X.

Hann sogaði að sér bæði stíl og þá tækni sem hæst bar meðal þeirra módernista sem mest máttu sín í Þýskalandi, Póllandi, og Bandaríkjunum á þeim tíma. Það var gott, þannig átti það að vera. Hjá Atla er þessi skringilegi þáttur – eins og í Mengi – bæði persónlegur og mikilvægur. Á áttunda áratugnum kemur þetta betur og betur í ljós: Í hinu fágaða fagurfræðilega hljómsveitarverki Hreinn Gallery Sum fyrir tvö píanó, 1-10 víólur, rafgítar, blásturshljóðfæri og slagverk, í Aríu fyrir kólóratursóprasöngkonuna Ilonu Marcos, sem einþykk og ákveðin, hömlulaus kastar sér út í ólgusjó tilgangslausra kúnsta.

Innblástur að slíkri tónlist fékk Atli í Los Angeles 1975, en þaðan sneri hann með þau skilaboð að heimurinn væri gersamlega klikkaður.

Skringilegheitin urðu umdeild í hljómsveitarverkinu Hjakk sem hjakkar og tyggur í sama farinu í fimmtán mínútur meðan tilgangslausar verur birtast og hverfa. „Í tónlist samtímans hafa nú um tíma heyrst fallegir tónar og falleg hljóð, en ég er orðinn svolítið þreyttur á því. Nú vil ég bara framkalla ljót og brútal hljóð – það er meiningin með þessu verki. Ögrandi áreitni á hlustir manna, gegn tónlistarfagurfræðinni, ögrun gegn öllum dægurlagaiðnaðnum og tónlistarframleiðslunni – þessi iðnaður sem á enga samleið með tónlist, og mun aldrei hafa. Þetta verður að vera annað hvort – eða.“

Annað spor inniheldur könnunarleiðangur, ævintýr. Tónskáldið leiðir hlustandann út í óvissuferð án þess að vita hver endirinn er. Má vera að íslenska sagnahefðin birtist þannig. Árið 1971 samdi Atli víólukonsert fyrir Ingvar Jónasson sem heitir einmitt Könnun. Konsert þessi er samsettur sem könnunarleiðangur. Einleikarinn er leiðtoginn í reisunni og hljómsveitin með rafmagnsgítar og rafmagnsorgel veita útskýringar. Ferðin hefst í hástemmdu expressíonísku landslagi, það upphefst barátta millum víólunnar og árásargjarnrar og móðursjúkrar hljómsveitar sem hýðir og lemur áfram stemninguna og eltir uppi sykursæta rómantík sem að lokum verður að engu í miklu hljómsveitargóli.

Flautukonsert Atla sem hann samdi fyrir kanadíska flautuleikarann Robert Aitken varð einnig ferðalag sem upphófst í grófu sprengjuregni slagverksins, meðfram langri rómantískri flautuaríu til loka þar sem brestur á með kammermúsíkalskri hugleiðslu með japanskri bambusflautu. Popphljóðfæri eins og rafmagnsorgel, rafmagnsgítar og saxófónn leiðir einnig til mjög einkennandi Atla-tóna.

Þessi flautukonsert var fyrsta íslenska tónverkið sem hlaut norrænu tónlistarverðlaunin (1986). Hann leggur upp í aðra heillandi ferð í fagottkonsertinum Trobar clus. Hér berst snilldarleg sólóröddin hetjulegri baráttu ,,leitar í myrkri“ þar sem hljómsveitin yfirgnæfir þar til að lokum að hún skýst upp eins og blóm að vori. Píanókonsert Conserto serpentidada (ormakonsert) sem er svo ófyrirsjáanlegur, aparta ensamble (auk söngvara) og margræður stíll er svo sannarlega ferð um ókunn lönd.

Rómantísku og lýrísku sporin hans Atla, með umfangsmikilli kammertónlist, leiða hann í átt að trú og hugleiðslu

„Ég er rómantíker, ég hef alltaf verið rómantíker,“ hélt hann fram þarna við eldhúsborðið. Hann var það alla vega 1974 þegar hann samdi tríóið Plutot blanche qu azuree undir áhrifum af fögrum degi í fallegu landslagi á eynni Langalandi við Danmörku. Zenit (punkturinn á himnahvelfingunni beint fyrir ofan mig) verður til þá er G-dúrhljómurinn brýst fram og í hinum langa hægfara endi er vel hægt að sjá fyrir sér sólarlagið. Af hita og linkuleg, flýtur tónlistin fram í nýrómantískt dagsljós. Önnur rómantísk tjáning, af sótthita, eirðarlaus brýst út í hinni undarlegu senu Xanties fyrir flautuleikara og píanóleikara, með rætur í myrkum frásagnarhluta úr bókinni A la rechercher d’un temps perdu (Í leit að glötuðum tíma) eftir Marcel Proust þar sem sagt er frá sveimhugum næturinnar. „Þetta er eins og söngur einhyrningsins og jómfrúarinnar, eins og söngur asnans og uxans.“

Asninn og uxinn koma einnig fyrir í hinu sérstæða píanóverki Gloría frá 1981. Trúarlífið og þá einkum hin kaþólska kirkja hefur heillað Atla allt frá þeim tíma er hann dvaldist sem ungur stúdent í klaustri í Þýskalandi. Í Gloríu sameinast náttúrulýrik og trúarleg málefni, hér er hugleiðing án orða um jólaguðspjallið ,,Gloría in exelsis“ það er lofsöngur englanna við fæðingu frelsarans. Ég velti fyrir mér hvernig þessi söngur gæti hafa hljómað, söngur englanna, himintunglanna, alheimsins, vögguvísa, nocturne, sálmur; allt í einu. Gloría sveiflast milli tveggja tjáningarforma – ekki síst hinna rómantísku- og efnisgerir ,,söng asnans og uxans“ í keðjusöng á móti hæstu og lægstu registur píanósins. (í keðjusöng með hæstu og lægst hljómum píanósins).

„Ég veit að stór hluti tónlistarhefðar okkar er að finna innan trúarbragðanna. Öll trúarstarfsemi hefur eitthvað með tónlist að gera. Kaþólska messan er sjónarspil og helgiathöfn, hún er hluti af hefðum okkar. Palestrina, Josquin. Og Bach sem er miðdepill hefðar okkar og upplifun. En í kaþólsku kirkjunni er mikil hefð fyrir hugleiðslu.“

Í tónlist Atla gefst víða tækifæri til þess að staldra við „Frá hinum þýska heimi“.

Dal regno del silenzo er talandi titill á stykki sérstaklega sömdu fyrir Erling Blöndal Bengtsson.

Innhverfum segulmögnuðum krafti hljómar hið einstæða „Þér hlið lyftið höfðum yðar“.

Sjötíu og fimm mínútuna löng hugleiðsla yfir 24. Davíssálmi samið fyrir klarinettuleikarann Einar Jóhannesson. Hér rísa bogar hugsana og tilfinninga hægt þar til þeir verða að háum hvelfingum og tjáningin verður hrein og tær.

Í besta falli getur listin vakið andann til lífs í hjörtum vorum. Það er frumtilangur þessa verks,“ skrifar Atli. Kórverkið Haustmyndir, fyrir Hamrahlíðarkórinn, við ljóð Snorra Hjartarsonar um tregafull viðbrögð þess er eldist í landslagi haustsins: í tuttugu mínútur hugleiðir kórinn yfir aðeins einum hljómi, meðan ný orð ljóðsins og tónar melódíunnar koma fram á sjónarsviðið sjaldgæf; músíkalskt flæði fylgir tímanum til endalokanna. Í Óði steinsins varpar Atli fram þrjátíu rómantískum hugleiðingum eins og á talnabandi fyrir píanó, flutningur og þverskurður steina frá norðanverðu Íslandi. Form þetta minnir á píanóverk Schumanns og Chopin.

Umfangsmesta rannsókn hans á hlutverki mannsins í tilverunni er líklega óratórían Tíminn og vatnið sem byggist á ljóðaflokki Steins Steinars. Einstakt form og tjáning.

Efniviður sá sem Atli notar í sína tuttugu söngva og tuttugu millikafla gefur góða mynd af tíðarandanum og sömuleiðis dettur manni í hug að ljóðin og tónlistin hafi upphaflega átt að verða ballettverk: 24-radda kór, þrír einsöngvarar, kammerhljómsveit með saxófón, gítarkvartett, harmonikku, rafmagnsorgeli, hörpu og sembaló. Hér er talnabandið aftur nýtt eða skráin – eða öllu heldur hviksjáin – sem mót fyrir myndir af „draumaveröld með ást, haf, Guð og tilganginum með tilgangsleysi lífsins“. Þrátt fyrir að vera ör eins og manía í margbreytileikanum getur Tíminn og vatnið orkað eins og hugleiðsla á íhugul eyru.

Eftir að Atli er orðinn þroskaður maður og kominn með alhliða reynslu sem tónskáld og eftir góða þjálfun í að semja tónlist fyrir leiksviðin í Reykjavík vindur hann sér að sviðstónlistinni og skapar japanskan Noh-leik sem gerist í nútímanum – með einfaldleika og expressjónískri tjáningu. Hér er um átakanlega ástarsögu milli fegurðardísar og ófreskju að ræða. Silkitromman er skrifuð fyrir örfáa söngvara, kammerhljómsveit og rafhljóðfæri. Stór mikilvæg atriði eru sungin án leiðsagnar hljóðfæra og með stórfenglegum einfaldleika málar hann í lokaatriðinu upp landamæri ríkja lifandi og dauðra með einum útdregnum hljómi. Silkitromman var sett á svið í Þjóðleikhúsinu árið 1982, feikna vinsæl og síðar uppfærð í Venesúela.

Þegar sama ár tók Atli Heimir Sveinsson til við að semja sjónvarpsóperuna Vikivaka sem var norrænt samstarfsverkefni.Vikivaki byggist á skáldsögu með súrrealísku ívafi og sögu eftir Gunnar Gunnarsson og á rætur sínar í íslensku skaplyndi og hinu dulræna og er því enginn munur gerður á draumi og veruleika. Silkitromman er alger andstæðaVikivaka sem er verk kórs og hljóðfæraleikara með eina persónu í forgrunni. Víkivaki er margslungið verk með þéttri músíkdramatískri formgerð, sniðið með fléttutækni (montagetækni) sem getur minnt á Stravinsky.

Allt aðra nálgun og tjáningu er að finna í kammeróperunni Tunglskinseyjunni sem frumflutt var í Peking árið 1996, þetta er leikhús einfaldleikans, ætlað þremur röddum, litlum hljóðfærahóp, strengjakvartett, harmonikku og hljóðgervli.

Hér er um að ræða rómantíska sögu sem á að gerast á keltnesku eyjunum á tímum víkinga fyrir landnám á Íslandi. Ræturnar er að finna í keltneska draumnum um land sólarlagsins þar sem hvorki er sorg né dauða að finna. Þetta er nakin tónlist með skýrri framsögn með sérstaklega vel útfærðri hljóðfærainnkomu sem myndar umhverfi kammertónlistar og no-leikstílsins fyrir tjáningu raddarinnar. Söngurinn spannar svið er nær frá einfaldleika þjóðlagsins til margbreytileika óperunnar.

Tengsl Atla Heimis Sveinssonar við Ísland og hið íslenska eru margra vídda. Skólun hans á meginlandinu, alþjóðlegt tengslanet og sjónarhorn ver hann þröngsýni þjóðernisstefnunnar og sveitamannsins. En þegar við fyrir löngu ræddum um það hvar nafla alheimsins væri að finna – Ameríku, Sovjét, Evrópu eða Kína – sagði hann: „Nei, nafli alheimsins er Ísland“ og hélt langar og djúpar útleggingar um íslenska menningu. Landslag Íslands, íslensk menning og íslensk vitund eru ómissandi leiðarstikur í meðvitund hans. Í raun birtist Íslendingurinn Atli Heimir Sveinsson í óteljandi tónsmíðum fyrir íslenska kóra, þar má nefna Hamrahlíðarkórinn, og í sönglögum Jónasar Hallgrímssonar og Einars Benediktssonar.

Lítið óvenjulegt framlag til karlakórslaga kom árið 1980 þegar Atli Heimir samdi lag fyrir karlakórinn Fóstbræður, lag við kvæði Þorsteins frá Hamri sem hann samdi upp úr hinu forna Grotta-kvæði. Það voru pólitísk mótmæli gegn arðráni kapítalismans á verkalýðnum. Hið pólitíska er efniviðurinn, en það var og pólitískur gjörningur að koma með þetta í nútímalegu formi handa karlakórum sem eru jú hluti íhaldssamrar hefðar. Allt aðra leið sýnir hann með því að semja Glenn Miller-tónlist fyrir söngleikinn Land míns föður sem fjallaði um Ísland í síðari heimsstyrjöldinni og um það þegar Íslendingar kynntust lífsstíl og tónlistarvenjum breskra og amerískra hermanna.

Atli hefur sagt að hann sé pólitískt virkt tónskáld. Hver tónsmíð er pólitískur gjörningur. Hvort heldur það er fagurfræðileg kammermúsík eða einföld tónlist til nota fyrir leikhús, flókin ópera eða sjúklega skemmtileg leikatriði eins og Iceland-Rap. Orð Maos: látið þúsund blóm blómstra, hefur hann augljóslega haft að leiðarljósi um hvernig hann ætti að starfa í íslensku samfélagi. Sjálfur hefur hann plantað miklu meiru.

Aðspurður hverja hann mæti mest í íslenskri tónlist svarar Atli heima við eldhúsborðið:

Ég ólst upp við lög Sigvalda Kaldalóns. Hann var læknir í Flatey og mamma nam píanóleik hjá honum. Það eru Kaldalóns og Jón Leifs sem ég hef haft mestan áhuga á.

Ég elska hið ljóðræna hjá Kaldalóns. Og Stockhausen!

Elísabet Brekkan þýddi.

Göran Bergendal er fæddur 1938, tónlistarfræðingur, aðaláhugamál sænsk og íslensk tónlist. Hann hefur starfað við tónlistardeild sænska ríkisútvarpsins og hjá Rikskonserter. Fyrr á þessu ári kom út ævisaga eftir hann um sænska tónskáldið Ingvar Lindholm. Göran hefur frá árinu 1972 fylgst grannt með þróun tónlistar á Íslandi og útbýr nú nýja útgáfu af bókinni New Music in Iceland (1991). Göran Bergendal, bergendal-roth@swipnet.se

20. september 2008 | Menningarblað/Lesbók

Leave a Reply

Press Enter To Begin Your Search
×
%d bloggers like this: