Listamannalíf II
Eftir Atla Heimi Sveinsson
Þróun tónlistar í Evrópu seinustu aldirnar hefur leitt til þess, að í dag eru öll hljóð sem til eru, og eiga eftir að finnast, hugsanlegur efniviður í músík. Þessi staðreynd hlýtur að valda miklum breytingum á skilningi okkar á tónlist, stöðu hennar í þjóðfélaginu og aðferðum okkar við samningu nýrrar tónlistar. Núna sjáum við í fyrsta skipti hilla undir músik, sem höfðar jafnt til allra jarðarbúa, hvort sem þeir eru fæddir í Bandaríkjunum, Þýzkalandi, Súdan, Japan eða Kína. Verk John Cages, Stockhausens og annarra eru afsprengi hugmyndasamruna austurs og vesturs, nýrrar tækni og aldagamallar speki. Við stöndum andspænis fjölda nýrra vandamála, sem einhverjir munu koma til með að leysa.
Ég sagði áðan: öll hljóð eru hugsanlegur efniviður í músík. Leit að nýjum hljóðum, hljóð- könnun (líkt og landkönnun), er einn þáttur í starfi tónskáldsins. En aðeins einn, því hvert hljóð sem við uppgötvum verður að breyta skilningi okkar á músikkinni, hvert hljóð lýtur sínum lögmálum, og verður að meðhöndlast samkvæmt þeim. Og hér er það sem flestir okkar bregðast. Við erum alltaf að taka hljóð, klippa þau, mæla þau, meta þau, pússa þau svo þau passi inn í eitthvert mót, form, sem er vanalega draugur aftan úr grárri forneskju. Einhver vitur maður sagði að hlutverk listamannsins væri að koma skipulagi á kaosinn, og einhver ennþá vitrari maður sagði að listamaðurinn ætti að gera skipulagninguna að kaos. Ég held að hvorki kaos né skipulagning skipti máli, ef við hættum að reyna að ráða yfir hljóðinu, en reynum þess í stað að finna hvernig það vill vera, hvar það vill vera, og hvert það vill fara. Víðasta skilgreining á músik, sem ég get hugsað mér: tími, hljóð, þögn — ef hún er til. Hljóðið er ein af höfuðskepnunum, og gæti það ekki verið hlutverk tónskáldsins að sýna mönnunum höfuðskepnu þessa í allri sinni ógn, sætleik og dýrð, í tímanum, þessari undarlegu hringekju lífsins og dauðans? Aðeins sýna hana, en ekki láta hana leika fyrir okkur tillærðar kúnstir eins og sæljón í fjölleikahúsi.
En hvað með fegurðina, kunna menn að spyrja? Fegurðin er aðeins einn af þáttum listarinnar, sem hún stundum grípur til en getur líka verið án. List á miklu meira skilt við líf en fegurð. Að mínum dómi er sú mikla tónlist sem ég þekki, ekki endilega tiltakanlega falleg, né fullkomin. Níunda sinfónían ber ekki af öðrum verkum vegna fegurðar sinnar eða fullkomnunar. Frá sjónarhóli fagurfræðinnar má eflaust margt að henni finna og frá sjónarhóli tónsmíðatækninnar líka, en hún er mannlegri með öllum sínum kostum og göll- um en flest önnur verk og meira í ætt við lífið. Beethoven, sú mikla manneskja og listamaður, leyfði hljóðinu að ráða braut sinni, hann reyndi ekki að breyta hljóðinu og klessa því inn í form fagurfræði og tónsmíðatækni, hann ætlaði hljóðinu að breyta sjálfum sér og okkur. Í hvert skipti sem ég hlusta á þá Níundu skil ég betur þau orð sem höfð eru eftir John Cage, að tónar séu tónar en ekki Beethoven. En því miður, ég þekki marga sem enga tóna heyra, engin hljóð heldur, bara Beethoven.
Hin nýju hljóð, sem notuð eru og munu verða notuð, hljóta að valda gjörnýtingu á hljóðumhverfinu, þ.e.a.s. eiginleikum hljóðsins, en þeir eru tími, styrkleiki, blær og hæð. Hljóð munu verða og eru, miklu lengri, mörgum sinnum sterkari, styttri, veikari, hærri og dýpri en áður. Þau verða þéttari í tímanum eða gisnari og nýir litir hljóðsins munu verða uppgötvaðir í það óendanlega. Ný hljóðfæri hafa komið til sögunnar og önnur óþekkt munu bætast í hópinn, og svo detta einhver úr leik — svona hefur það alltaf verið. Raftæknin hefur líka verið tekin í þjónustu tónlistarinnar. Elektrónísk tónlist er ung að árum og þarafleiðandi skammt á veg komin, en þar er gerð verksins fest inná tónband, einnig er hljóðum hljóðfæranna umbreytt með hljóðnemum og hátölurum á sviðinu fyrir framan áheyrendur. Við höfum möguleika, og þeir hafa verið notaðir, að láta hljóð koma úr öllum áttum til áheyrenda.
Svona má lengi telja upp allar þær nýjungar sem áunnizt hafa. Það er mikilvægt að við bregðumst rétt við þeim, horfumst í augu við þær og notum þær, en stingum ekki höfðinu í sandinn eins og strútar. Við verðum að nota alla möguleika og allar nýjungar — rétt. Ég á við að listin má aldrei verða sýning á nýjungum eða möguleikum, alla nýja hluti verður að nota á nýjan hátt, því allir nýir hlutir hafa nýju hlutverki að gegna í heiminum, í stuttu máli sagt: við verðum að vera skapandi. Ef okkur tekst að vera mannlega skapandi þá getur hin nýja list tjáð meira og gegnt mikilvægara hlutverki fyrir mannkynið en nokkru sinni áður, því tjáningarmeðul hennar og tækni eru fullkomnari og margvíslegri en nokkru sinni fyrr.
En hvernig getum við verið skapandi og valdið því hlutverki, sem okkur hefur verið lagt á herðar? Sköpunargáfa er meðfæddur hæfileiki, miklir listamenn hafa hann aðeins í ríkara mæli en aðrir. Það er engin formúla til fyrir sköpun, og hver og einn verður að finna sína leið, einn og óstuddur og rækta þennan dýrmæta hæfileika. En ég veit það eitt að sköpunar- gáfan nærist af áhrifum frá umhverfinu og er andstæða vanans. Ef við getum haldið gluggum skynjunarinnar hreinum, lítum ekki á lífið í gegnum annarra gler og látum ekki mosa vanans spíra í brjóstum okkar, þá gætum við kannski gert eitthvað sem máli skiptir.
En hvað með hefðina, hvernig varðveitum við samhengið? Við erum hefð, hvort sem við viljum eða ekki. Ég þekki engan skapandi tónlistarmann, sem ekki hefur mótazt af verkum eldri listamanna, og öll músik er að því leyti hefðbundin að hún er gerð fyrir gömul hljóðfæri og möguleika þeirra. Einnig eru tónlistarform og vettvangur hennar hefðbundin, ennþá er músik gerð til að flytjast í konsertsal eins og fyrir hundrað árum. Hefðin er svo sterk að það er ákaflega erfitt að brjótast undan henni, og raunar ekki mögulegt. En hlutverk listamanns er ekki að fylgja skoðunum og aðferðum annarra, hversu góðir sem þeir svo annars eru, heldur skapa nýjar skoðanir og aðferðir. Og ef einhver „hefð” þarf sér- stakrar varðveizlu við, þá sýnir það aðeins að hún er ekki nógu sterk og lifandi að standa undir sjálfri sér. Ýmsir rugla saman hefð og eftiröpun. Prókoffíeff samdi sinfóníu, sem hann nefndi „klassíska”, en útkoman varð hvorki klassísk né hefðbundin, aðeins gamaldags. Það er tvennt ólíkt að stæla stíl eldri manna eða vinna í anda þeirra. Meðalskussi í tónlistarskóla getur samið í stíl Mozarts, en aðeins fáir geta unnið í anda hans, verið jafn snjallir að skilgreina aðstöðu sína, kryfja fortíð og nútíð til mergjar og tjá sig af slíku listfengi sem þessi maður.
Þessar hugleiðingar sækja á mig núna, því ég er að skrifa verk — stórt verk. Kannski tekst mér aldrei að ljúka við það. En þetta verk á ekki að verða venjulegt verk, ef mér tekst það sem ég ætla mér, verður það mjög óvanalegt. Ég veit raunar ekki hvernig það á að vera, oft veit maður það ekki fyrr en maður hefur lokið við verkið, og þá fyrst sér maður að flest var rangt gert, og lítið af því tókst sem maður ætlaði sér. Og eftir að maður var búinn að vera niðurbrotinn á sál og líkama í marga daga, jafnvel vikur, byrjaði nýtt verk að kvikna í hugskotinu sem átti að verða miklu betra en það seinasta. Sagan endurtók sig og endurtekur sig enn, en hver veit, kannski kemur sá dagur að……
For boys and girls er safn stuttra þátta sem ég gerði fyrir nokkra vini mín og kunningja. Í fyrrasumar dvaldi ég einn í stóru húsi vestur í Flatey á Breiðafirði og sóttu þá að mér kátlegar hugsanir einkum á kvöldin, en þau eru mjög fögur þar vestra. Hvað mundi þessi eða hinn gera ef hann væri einn í herbergi ásamt flygli einum hluta? — þessi var kveikjan og svo urðu stykkin til. Ég hafði af þessu góða skemmtun, og ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt að skemmta sér vel við þá vinnu sem maður innir af hendi.
Kalla er ung kona og raunar gift poppistanum Þórði. Hún fékk stykki sem hægt er að spila með sleikjufingri, hægri og vinstri handar, sömu tvær nóturnar alltaf endurteknar. Stykkið fyrir Þórð er allt öðruvísi, það er ekkert annað en lýsing á píanótónleikum þegar búið er að taka burt alla þá músik sem píanistinn spilar. Myndin er bara mynd, táknar allt og ekkert. Þó píanistinn spili ekki neitt gerist samt heljarmikið, áheyrendur klappa á réttum stöðum (kunna sig) og snillingurinn hneigir sig á réttum stöðum (kann sig). Ég lét sama aðilan, Þórð, gera þetta allt, og honum ætti ekki að verða skotaskuld úr því.
Greinin birtist í Birtingi, 14. árgangi 1968, 1. tölublaði.