LISTAMANNALÍF

eftir Atla Heimi Sveinsson

Það er ekki auðvelt fyrir tónskáld að lýsa viðhorfum sínum til listarinnar í orðum. Mál þess er hljóðið, og verkin mynd þess af listinni. Orðið getur aldrei komið í staðinn fyrir hljóðið, hljóðið aldrei í stað litsins og línunnar. Til eru þau svið mannlegs anda, sem orðið eitt getur tjáð, og önnur, sem aðeins verða túlkuð með hljóði, enn önnur sem aðeins litur og lína megna að tjá. Orðið, hljóðið, liturinn og línan eru mismunandi tjáningartæki, geta stundum komið í stað hvers annars, en ekki nærri alltaf. Vandamál listamanna í mismunandi listgreinum eru lík að sumu leyti, en ólík að öðru. Viðhorf listamanns til listarinnar eru ákaflega persónuleg og mótuð af starfi hans, því hann hefur við fátt annað að styðjast. Og það er erfitt að skoða eigin hug, þekkja sjálfan sig.

Óvissa um markmið og öryggisleysi fylgja listamanninum alla ævi hans. Það er enginn, sem getur sagt honum eða bent honum á, hvert ber að stefna. Oft veit listamaðurinn ekki sjálfur hvert hann á að stefna eða hvert hann stefnir. Það hefur engum tekizt að spá neinu um framtíð listarinnar, og hún breytist vanalega þveröfugt við það, sem vísustu menn halda. En kannski hugsar listamaðurinn ekki svo mikið um framtíðina, hvað þá heldur fortíðina. Bandaríska tónskáldið Varése sagði þegar hann var spurður um framtíð tónlistar: ,,Ég hef engan áhuga á framtíð listarinnar né fortíð, því ég er alltaf að fást við nútíðina.” En þegar maður veit ekki hvernig næstu tíu sekúndur eiga að vera í tónverki og veltir því fyrir sér klukkutímum saman, þá sækja að þrálátar spurningar: Hvert ber að stefna? Já — hvert er markmiðið? Það er ekki unnt að gera áætlanir um framtíð listarinnar, því markmiðið er svo óljóst.

Listamaðurinn veit aldrei hvers virði árangurinn er af starfi hans, sem oft er þrotlaust og eflaust satt hjá Þórbergi, að aldrei hafi verið sett saman svo léleg bók á íslandi, að það hafi ekki kostað meira andlegt erfiði en að stjórna togaraútgerð í heilt ár, að mig minnir.

Þó eitthvert verk slái í gegn, njóti vinsælda og aðdáunar, þá þarf slíkt ekki að vera neinn mælikvarði á listrænt gildi þess, og er það oft ekki. Kannski er tíminn einn óskeikull list- dómari (vonandi þó?), en hann kveður fyrst upp dóm sinn, þegar höfundur verksins er allur. Ýmsir listamenn, sem ég þekki, óska þess af öllu hjarta, að verk þeirra lifi lengur en þeir, en mér finnst þetta hroki, dramb, yfirlæti.

Ég get varla hugsað mér annað en að þau verk, sem ég hef gert, hverfi um leið og ég af þessu tilveruplani, því þau eru svo samtengd mér og mínu lífi, svo mikill hluti af sjálfum mér. Þau eru kannski heldur ekki svo merkileg.

Ég álít, að tækni sé persónuleg, bundin stað og tíma og að hvert listaverk þarfnist sinnar eigin tækni, sem er samofin því og engu öðru. En þegar sagt er um einhvern listamann, að hann hafi mikla tækni, þá merkir það aðeins frá mínum bæjardyrum séð, að hann hafi ekki nógu mikla tækni, aðeins „svokallaða tækni”. Tækni er enginn tilgangur í sjálfu sér og full- komin tækni afmáir sjálfa sig. Þegar við stöndum fyrir framan píslarmyndir El Grecos, eða heyrum h-moll messu Bachs, hvað varðar okkur þá um tækni? Við spyrjum ekki að því, hvort verkið sé vel eða illa gert. Þeir, sem ekki hafa upplifað þetta sjálfir, skilja kannski ekki hvað ég er að fara. Mér finnst að tækni, form og innihald sé eins konar heilög þrenning í listaverki — þrenning, sem er þríein, sjálfstæðir partar þess en þó eitt og hið sama.

Og kannski nægir ekki tæknin ein (það sem ég kalla tækni), heppnin þarf að vera með til þess að skapa listaverk. Heppni er afleiðing þúsunda af hagstæðum smáatvikum. Lista- menn tala gjarnan um að þeim hafi heppnazt eitthvað eða misheppnazt, og ég held, að heppnin — þetta hugtak, sem er svo erfitt að skilgreina til hlítar — sé stærri þáttur í list- sköpun en margan grunar.

Listaverk eða tilraun til listaverks er árangur af tækni, heppni og ýmsu fleira. Þar á meðal sannfæringu. Allir listamenn trúa á verk sín, annars hefðu þau orðið eldinum að bráð og enginn litið þau augum nema höfundurinn. Auðvitað er enginn listamaður fullkomlega ánægður með verk sitt, aðeins ánægður eftir atvikum, og næsta verk á að verða betra. Kannski sér listamaðurinn um seinan ef hann hefur gert mistök, en það gerir ekkert til, því menn læra oft mest á sínum eigin mistökum. Mér finnst erfitt að fella dóm um listaverk. Er hægt að áfellast mann sem segir: Hér stend ég af því ég get ekki annað?

Greinin birtist í Birtingi 13. árgangi 1967, 4. tölublaði.

Leave a Reply