Listamannslíf

Hugleiðingar um nútíð og fortíð

eftir Atla Heimi Sveinsson

1

Þetta eru hugleiðingar sem sótt hafa á hugann undanfarið þegar ég lít yfir farinn veg. Einhvers konar bráðabirgðaniðurstaða af reynslu síðustu 35 ára. Spurningarnar sem ég hef velt fyrir mér, oft og óskipulega, eru t.d. þessar: Hver er staða tónlistar í dag? Hvað hefur gerst síðan árið 1950? Hvert stefnir? Hvað gerðist í gamla daga? Þessar spurningar eru viðamiklar og ekki mögulegt að svara þeim í stuttu máli. Þær ramma inn það, sem hér fer á eftir. Ég er ekki hlutlaus, kæri mig ekki um að vera það, og get það sennilega ekki; allt er hér mótað af persónulegum smekk mínum og skoðunum.

2

Mín kynslóð var sú fyrsta sem hafði aðgang að allri tónlistarsögunni. Með nýrri tækni, prents og hljóðritunar, ásamt rannsóknum, varð öll fortíðin í tónlist aðgengileg fyrir almenning. Þetta breytti allri afstöðu sumra tónskálda. Breiðskífutíminn hófst um 1950, og hæfæið fór sigurför um heiminn.

Fjarskiptatækni gerði líka mögulegt að yfirvinna fjarlægðir, heimurinn varð að heimsþorpi. Það var unnt að fylgjast með nýjungum hvar sem var í heiminum jafnóðum og þær áttu sér stað. Merkilega tónleika í New York mátti heyra viku síðar, eða samtímis í Köln, annað hvort af segulbandi eða í útvarpi. Þetta var nýtt og spennandi þegar ég var ungur, en þykir sjálfsagt núna.

Þetta tvennt mótaði hugsun og viðhorf minnar kynslóðar öðru fremur. Og menn brugðust við á ýmsan hátt.

Hlutverk tónlistar og annarra listgreina breytist með gerð samfélagsins. Í fyrndinni var tónlistin kennd við galdur og trúarbrögð. Svo varð hún skrautleg umgjörð um alræðisvaldið, endurvarp þess, eins og á barokktímanum. Nú er hún fjölföldun, endurtekning og endurgerð. Allt mótar þetta gerð hennar, áferð og uppbyggingu: galdurinn, umgjörðin og fjölmengunin.

Fegurðarmatið, gildismatið er annað núna heldur en fyrir 200 árum. Öll þessi gömlu hlutverk eru samtímis lifandi í dag, og ný hafa bæst við.

Samt finnst mér hugmyndir manna í Evrópu um hvað sé gott listaverk ekki hafa breyst ýkja mikið á undanförnum öldum. Það gerir hefðin, sem er styrkur og veikleiki Evrópumenningarinnar í senn. Á sama hátt er hefðarleysið í Bandaríkjunum, nýja heiminum, styrkur og veikleiki, eftir því hvernig á málum er haldið og á málin er litið.

Ísland liggur á milli þessara heima. Í því liggja möguleikar okkar í listsköpun. Við eigum gamla og nýja listmenningu og getum flutt reynslu og hefð einnar listgreinar, bókmennta, yfir í aðrar sem síðar námu hér land, þar á meðal tónlist. Landfræðilega liggjum við í miðju heimsins, búum á eyju, handan heimsins, milli tveggja meginlanda og lítum niður til heimsins frá sjónarhorni kríunnar.

Samspil miðlanna verður æ margbrotnara, samt ekki endilega fjölbreyttara. Grammófónplatan útrýmdi ekki tónleikunum. Með fleiri plötum komu fleiri tónleikar. Það var meira hlustað. Raftónlistin útrýmdi ekki hljóðfæraleikurum. Og þó að aldrei sé meira soðið niður af tónlist og geymt, heftir aldrei verið meira spilað læf. Neyslan jókst.

Á öðrum sviðum er sama að segja: kvikmyndin kom ekki í stað leikhússins, sjónvarpið ekki í stað kvikmyndarinnar, og myndbandið ekki í stað sjónvarpsins. Miðlarnir eru fleiri, samspilið flóknara, miðlunin margbrotnari og ófyrirsjáanlegri.

3

Kennarar mínir og fyrirmyndir voru 10-15 árum eldri en ég, og höfðu allir upplifað heimsstyrjöldina síðari. Það var skrítið fyrir ungan mann sem kom frá landi þar sem stríðsgróðaskattur var lagður á efnamenn og betri borgarar töluðu lengi um „blessað stríðið”, að kynnast þessu fólki. Ég held að við eyjaskeggjar úr norðrinu gerum okkur ekki grein fyrir því hversu yfirgengileg þjáning stríðið, nasisminn og síðar kommúnisminn var. Og fyrir millistéttarungling frá einangraðri, hálfdanskri nýlendu bak við heiminn – þar sem nýlega hafði verið stofnað lýðveldi – framkölluðu kynnin af svokallaðri heimsmenningu dálítið sjokk á þessum árum.

Ég kom til Þýskalands tvítugur, í miðju efnahagsundrinu og kalda stríðinu. Þeir sem voru 10-15 árum eldri þökkuðu sínum sæla fyrir að hafa lifað af djöfulganginn. Ég lærði hefðbundið handverk tónsmíðanna hjá Günter Raphael, stórmerku tónskáldi af Gyðingaættum og fékk þar með innsýn í harmsögu þeirrar þjóðar. Síðar bjó ég í Hollandi í skjóli annars Gyðings, Walters Maas. Einnig kynntist ég kaþólsku kirkjunni á þessum árum og dvaldist um tíma í klaustri hjá Benediktusarmúnkum. Þau áhrif fylgdu mér og löngu síðar tók ég kaþólska trú. Ég hef álitið það mikið lán að vera uppfóstraður hjá gyðingum og múnkum.

Hér heima hafði ég lært á píanó hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni, og var liðtækur píanisti. Hann lét mig spila verk eftir Prokófíeff og Bartók, og það þótti djarft í þá daga. Frönsku impressjónistunum hafði ég kynnst hjá Guðmundi Jónssyni píanóleikara og mér verða alltaf ógleymanleg fyrstu kynni mín af þeim. Nóturnar voru fullkomlega ólesanlegar og óskiljanlegar. En þá strax vildi ég stríðari hljóma!

Áður en ég hélt utan voru Webern og Stockhausen fyrirmyndir mínar. Hér heima á íslandi hafði ég heyrt Tríóið opus 21 eftir Webern, og Söng unglinganna eftir Stockhausen. Einnig hafði Jón Nordal lofað mér að hlýða á Zeitmasse eftir Stockhausen og Le marteau sans maitre eftir Boulez. Ég var óskaplega hrifinn og þessari tónlist vildi ég kynnast. Þetta var veganestið.

Svo kynntist ég samtímatónlistinni í Köln og hreifst með. Stockhausen, König, Zimmermann og Cage mótuðu mig öðrum fremur.

Annars var ég – og er – alæta á tónlist. Það hefur svo margt gott komið fram af ólíkum toga, sem auðgað hefur líf mitt. Ég hugsa um verkið sjálft, ekki stefnuna sem það telst til eða höfundinn. Það er aðeins ein stjarna í tónlistinni, sagði Mahler: verkið sjálft.

Mér finnst alltaf undarlegt þegar gamaldags tónskáld þykjast ekki tilheyra neinum ismum. Það er ekki hægt að stilla upp klassík annars vegar, sem á að vera góð, eilíf, og ismum hins vegar, sem eiga að vera skammlífar tískustefnur,varasamar fyrir unga listamenn. Það ber vott um fákunnáttu. Gamla hljómfræðin, fegurðarímynd Fjárlaganna eða fingraæfingar Chopins eru ismar rétt eins og hvað annað. Ismi var skammaryrði um list sem afturhaldsdrjólar voru á móti, og það var notað undantekningarlítið, í mínu ungdæmi, um það áhugaverðasta í list.

4

Núna sé ég tónlist eftirstríðstímans úr nokkurri fjarlægð. Hún var mjög ómstríð og sundurtætt, enda endurspeglaði hún yfirgengilega reynslu. Þýski heimspekingurinn Adorno spurði hvort nokkur siðmenning væri möguleg eftir Auschwitz. Það var þörf spurning. Nýja tónlistin var ólík flestu því sem menn höfðu áður gert. Menn vildu losna frá hræðilegri fortíð glæpa og þjáninga og gera eitthvað nýtt og betra, eitthvað sem aldrei hafði heyrst áður og var ólíkt öllu því sem áður var þekkt. Fara aftur á byrjunarreitinn. Die Stunde Null sögðu Þjóðverjar.

Mig undrar núna hvað þessi tónskáld voru ung þegar þau höfðu haslað sér völl: Boulez, Stockhausen, Nono, Penderecki og fleiri. Þeir sömdu frábærustu verk sín rúmlega tvítugir. Þessir snillingar voru mjög bráðþroska. Snillingar eru það kannski alltaf. Ég er enn þeirrar skoðunar að séu listamenn ekki búnir að gera eitthvað bitastætt fyrir þrítugt, geri þeir það aldrei. Þess vegna sagði ég alltaf við nemendur mína: Flýtið ykkur! Það er ekki eftir neinu að bíða.

Menn dreymdi um, og sáu fyrir, samlífi vísinda og tónlistar. Þetta er ekkert nýtt, slíkar hugmyndir voru mjög algengar á miðöldum. Menn héldu sig geta notað tölfræði í þágu listarinnar og sýsluðu með talnaraðir, permútasjónir, staðtölufræði, notuðu hugtök æðri stærðfræði, efna- og eðlisfræði, án þess að skilja þau til hlítar. Þannig varð seríalisminn – raðtæknin – til. Allt tengdist þetta raftónlistinni. Sú tækni kom til sögunnar og síðar tölvutæknin, sem menn reyndu að samhæfa og aðlaga hinum listrænu lögmálum. Menn vildu burt frá merkingarlausum tilfinningabelgingi, útjaskaðri rómantík þeirra innihaldslausu slagorða sem einkennt höfðu menningarstefnu fasistaríkjanna. Þjóðremban hér er hluti af þessu. Við fáum nóg af henni 17.júní í músik.

Það er athyglisvert að frumkvöðlar seríalismans, Boulez og Stockhausen, sömdu aðeins eitt verk hvor eftir ströngustu kokkabókum fyrirframákveðinnar sjálfvirkni, og voru á undan öðrum að leita eftir nýjum sveigjanlegri aðferðum. Sporgöngumennirnir héldu áfram að stæla þetta eina verk og afturhaldsdrjólarnir að velta því enn fyrir sér hvort yfirhöfuð sé hægt að semja góða tónlist með svo vondum aðferðum. Og það undarlega var að það tókst í einstaka tilvikum. Með sérviskulegum aðferðum tókst Luigi Nono að gera mikil og átakanleg hádramatísk tónverk. Þetta er undantekningin sem sannar regluna. Nono var líka snillingur!

Mér finnst til lítils að rífast um tólftónaaðferðina eða seríalismann. Það er eins og að rífast um dúr- og mollkerfið. Tólftónaaðferðin reyndist sumum vel. Tólftónamennirnir, Schönberg, Berg og Webern, voru fremstu tónskáld síns tíma. Þó Mozart og Beethoven hafi samið snilldarverk í dúr og moll hefur það sama kerfi ekki náð að lyfta íslenskum bergrisum til flugs á ofanverðri 20stu öld. Bullið batnar ekki þótt það sé í C-dúr. Það er nefnilega útkoman sem gildir, ekki aðferðin.

5

Hér var mikið rætt um hvort listin ætti að vera þjóðleg eður ei. Eins og vanalega þegar þröngsýnt og ráðvillt fólk reynir að rökræða endaði umræðan í endaleysu: Öll þjóðleg list er alþjóðleg og öll alþjóðleg list er þjóðleg. Til þess að vera þjóðlegur þarf maður að vera alþjóðlegur … og svo framvegis. Að þessari niðurstöðu fenginni gátu allir unað glaðir við sitt.

En útkoman var óttalegt klúður í flestum tilvikum, nema hjá Jóni Leifs.

Verk hans gnæfðu uppúr. Og það er mikill munur á rammíslenskum tóni hans og þjóðlagatilgerð hinna. Ég var sakaður um „að skammast mín fyrir íslenska brekánið” og vilja „skreyta mig með erlendu hýjalíni”, og lét mig hafa það.

Yfirleitt var umræðan í vælutón eða einkenndist af sjálfsánægju og sjálfbirgingshætti. Ég tók engan þátt í henni nema einu sinni í Listamannaklúbbnum. Menn voru að ræða hvað það væri erfitt að skapa list. Ég hef sjálfsagt verið búinn að fá mér nokkra tvöfalda asna og ég sagði: „Ekki ef maður er séní”. Þetta þótti ekkert fyndið, þaðanafsíður gáfulegt, því hér átti fólk að vera alvarlegt. Svona töluðu hrokafullir reiðir ungir menn.

Ung tónskáld segja að aldrei sé erfiðara að semja en nú. Hvað hafa þessir menn til samanburðar? Hversu erfitt var að semja bitastæða tónlist áður fyrr?

Þetta var löngum sagt og sjálfsagt hef ég einhverntíma tekið þátt í þessum kór líka.

En eins og kunnugt er eiga listamenn að vera auðmjúkir á Íslandi. Það var mikið talað um hina reiðu ungu menn. Ég var aldrei reiður, bara ungur. En ég var aldrei auðmjúkur. Alla vega ekki gagnvart yfirvöldunum. Og ég veit að Listagyðjan vill ekki auðmjúka þjóna. Hún vill trúa þjóna sem eru tilbúnir að leggja allt í sölurnar og taka áhættu.

Ég vildi gera tónlist sem var íslensk og erlend, gömul og ný, hefðbundin og frjáls í senn. Persónuleg og einstaklingsbundin tjáning en um leið hluti heildarinnar. Mér fannst hún vera hljómur og þögn í senn. Kannski hljómandi þögn eða þögull hljómur. Einn tónn vekur eftirvæntingu, næsti á eftir minningu – milli þeirra er tónlistin sjálf segir þýska tónskáldið Wolfgang Rihm.

6

Mikið af hugsunarhætti seríalismans situr í mér, þó ég hafi ekki notað altæka röðunartækni síðan í tónsmíðaæfingum á námsárunum, og tólftón ekki síðan ég var 18 ára í gagnlegum tónsmíðatímum hjá Jóni Nordal. Ég hef aðallega spunnið í tónsmíðum mínum í gegnum árin, treyst á hugdettur, hugmyndaflug, næmi, heppni og innsæi. Ég sem ekki eftir neinum sérstökum aðferðum. Fyrst kemur verkið, síðan teórían. Það er erfitt að flokka mín verk.

Kannski komst Leifur Þórarinsson næst því í einhverri gagnrýni, en hann taldi mig vera þýskan expressjónista. Ég held að það geti verið rétt skilgreining.

Ég hef oft pælt í teóríu, en aldrei skrifað neitt um slíka hluti. Þjóðverjar þurfa margir að burðast með mikið teóríubákn, samanber Schönberg og Stockhausen. Raunar Wagner líka. Ég hef aldrei viljað kerfisbinda neitt í músik þó ég sé teórítískur. Ég vil vera eins og Debussy, sem aldrei skrifaði neitt um teóríu, en er mjög teórítískur í verkum sínum.

Á mínum ferli hafa komið fram nýjar stefnur og hugtök eins og mínimalismi, póstmódernismi og svo hafa tölvurnar haldið innreið sína í tónsköpun.

Hugtakið mínímalismi er dálítið villandi. Það hefur löngum þótt dyggð að gera mikið úr litlu, fara vel með efniviðinn. Þetta var vinnuregla Bachs og síðar annarra, sem unnu stór verk úr litlum frumum, allt frá Beethoven til Schönbergs. En mínímalismi nútímans er líka kallaður endurtekningatónlist. Lítill efniviður er síendurtekinn, stundum með smávægilegum tilbrigðum, og breytingar ferlisins eru mjög hægar. Þegar margir slíkir efnisþættir fléttast saman geta orðið til einkennileg mynstur og framvinda verksins er mikil slómósjón. Mér fannst þetta hrífandi í fyrstu verkum Terry Rileys, Steve Reichs, Phil Glass og La Monte Young.

Á þessum árum voru menn alltaf að leita endalauss fjölbreytileika og sífellt varð eitthvað að gerast á hverju augnabliki. Endurtekning taldist ekki til listrænna dyggða og var sett samasemmerki milli hennar og banalítets. Og mínímalisminn var andstæðuviðbragð við því, sem menn voru í hjarta sínu orðnir löngu leiðir á. Mínímalistarnir píptu á fagurfræði seríalistanna, gerðu allt þvert á almenningsálit menningarpáfanna. Það var sérstæður ferskleiki yfir fyrstu verkum mínímalistanna, en mér fannst að þeir stöðnuðu fljótt, færu að rugla saman listsköpun og auglýsingamennsku eins og nokkrir ofvirkir dugnaðarforkar á poppkantinum.

Póstmódernismi er hugtak sem sífellt oftar heyrist. Einhvers konar andóf gegn því sem kallast nútímatónlist og ég hef lítillega lýst hér að framan. Ómstreita atónalítetsins var ekki lengur spennandi, oft innihaldslaus. Menn gagnrýndu módernistana fyrir að fullnægja aðeins sjálfum sér en ekki áheyrendum. Menn gerðu þá kröfu að tónlistin höfðaði til svonefnds vanalegs fólks en ekki lítils sértrúarsafnaðar listsérvitringa og -vitringa. Menn þráðu „hinn gamla ilm liðinna daga” eins og Pétur í tunglinu hjá Schönberg. Og menn hófu að semja tónlist í gömlum stíl á ný og einkanlega Mahler varð fyrirmynd. Talað var um nýrómantík, nýjan einfaldleika og margt fleira.

En það kom í ljós að flest voru verkin léleg eftirlíking og fyrirmyndirnar miklu betri. Það er mjög erfitt að semja í gömlum stíl svo vel fari. Og það er erfitt að semja melódíska músik. Jafnvel snillingur eins og Stravinsky gerðist stundum mistækur í stílstælingum. Og hinn eftirsótti einfaldleiki varð oftast tilgerðarlegur og ofurflókinn, kannski frumstæður

Módernismi á ekki við um tíma, – nútíma – heldur um gæði. Það voru einfaldlega bestu listamennirnir sem á fyrri hluta aldarinnar gerðu tónlist sem kölluð var módern; Schönberg, Berg og Webern. Hún var oft atónal og ómstríð, óháttbundin og formlaus að því sumum fannst. En hún var tjáningarrík og sönn.

Raftónlistin er mjög merkileg, Með henni opnast hljóðheimur sem er heillandi og nýstárlegur. Áhugi minn á henni hefur verið mismikill. Kannski gaf ég mér aldrei nógan tíma til að sinna henni sem skyldi. Þó hefur hún fylgt mér allar götur og áhrifa frá henni gætir efiaust í verkum mínum.

Síðar komu tölvurnar til sögunnar sem kölluðu á nýjar aðferðir og nýja fagurfræði. Allt hefur þetta aukið möguleikana og fjölbreytnina. En um leið verður valið erfiðara. Fjölbreytnin á ljósvakanum jókst ekki með fjölgun rásanna. Það var aðeins útvarpað meira magni af því sama. Þannig er þetta með tölvutæknina og elektróníkina. En mér finnst nauðsynlegt tónskáldum núna að fást við þessa nýju tækni. Hætt er við að hún lendi í tækja- og tæknidýrkun eins og í poppinu.

7

Allt sem heyra má er efniviður í tónlist, tónar og þagnir, öll hljóð hvort sem þau flokkast undir hávaða eður ei. Þetta er afrakstur módernismans og raftónlistarinnar. Allir stílar allra tíma og allar hefðir í heimi geta staðið saman í tónlist nútímans. Það má segja að ekkert sé bannað. En það var aldrei neitt bannað. Miklir listamenn gerðu nákvæmlega það sem þeim datt í hug og sannfæring þeirra sagði þeim. Það er fáránlegt að segja að hér áður fyrr hafi eitthvað verið bannað.

En efniviðurinn er jafn vandmeðfarinn og fyrr. Það var ekki allt klassískt sem samið var í C-dúr. Margt var bullað, og er ennþá bullað undir gömlum háttum, sem fúskarar telja að séu upphaf og endir alls. Og innblástur er forréttindi fárra, rétt eins og áður. Á öllum tímum eru loddarar sem blekkja samatímamenn sína. Verstir finnast mér þeir sem þykjast vera fulltrúar „gömlu meistaranna”.

Núna tala ungir menn um að Stockhausen, Kölnarskólinn og Darmstadthópurinn (en þar voru, og eru, merkileg sumarnámskeið í nútímatónlist) hafi stjórnað tónlistarstefnum í Evrópu á sjötta og sjöunda áratugnum.

Þetta er algjör firra. Áhrif Stockhausens voru mikil, því hann samdi frábær verk, hafði einstakt fræðilegt hugmyndaflug, og hæfileika til að sjá hlutina í nýju ljósi, óvæntu samhengi, og hann hafði upptendrandi útgeislun. Hann hafði sína hirð rétt eins og fleiri góðir listamenn; þar trúðu sumir hverjir stíft á meistarann.

En ég kannast ekki við að neinar tilskipanir hafi verið gefnar út í Darmstadt, neinir opinberir dómar felldir um hvað væri gott og vont. Hvenær og hvar? Mér er spurn.

Það er algeng aðferð í umræðum hér á landi, þó ekki sé hægt að kalla hana séríslenska, að gera andstæðingnum upp skoðanir, helst fáránlegar, og ráðast síðan á þær.

Mönnum ber að hafa sínar skoðanir, og það er allt í lagi að láta þær í ljós. Það hafa Stockhausen og Darmstadtmennirnir eflaust gert.

En þetta gerir ekkert til. Listamenn láta ekki stjórna sér. Aftaníossum eða epígónum er stjórnað og þeir vilja það. Listamenn stjórna sér sjálfir, þótt ýmsum sem vilja skreyta sig með listamannsheiti finnist það ótrúlegt.

Og aftaníossar eru alltaf miklu fleiri en listamennirnir, og þess vegna ber meira á þeim. Thor Vilhjálmsson kallar þetta hinn óskrifandi meirihluta. Listamenn fara ekki eftir fyrirskrifuðum reglum, heldur búa til reglur, segir Busoni einhvers staðar. Hitt er svo annað mál að allir listamenn verða fyrir áhrifum því enginn er eyland stendur í miklu kvæði. Ég varð fyrir margvíslegum áhrifum, án þess að bíða tjón á sálu minni, en hins vegar hef ég engan látið segja mér hvað má og hvað má ekki gera.

8

Það er annarra að dæma um minn stíl, en mér finnst hann síbreytilegur. Það er auðvelt að staðna, einkum hér á íslandi.

En strax í byrjun fannst mér ótækt að geta ekki notað alla þá hljóma sem til voru. Ég vildi nota dúr og moll hljóma, en á nýjan hátt. Ýmsir töluðu um að með þessum hljómum væri ekkert hægt að segja lengur, efnið væri ofnotað og hætt að virka. Menn eins og Adorno og Metzger töluðu um hina sögulegu tilhneigingu efnisins og fleira í þeim dúr, sem ég skildi aldrei. Og frá upphafi finnast gamlir hljómar í verkum mínum, en vonandi séðir frá nýju sjónarhorni.

Rímorð eins og „synd” er banalt þegar það rímar á móti „mynd” og „ást sem aldrei brást” er útjaskaður orðaleppur sem ekki segir neitt vegna of- og misnotkunar. Það er mjög sjaldgæft og á fárra færi að gefa slíkum banalítetum nýja, ferska og sanna merkingu. Láta þau segja eitthvað sem áður var óþekkt.

En það má líka segja að blái liturinn í málverkinu sé alltaf ferskur og nýr ef það tekst að láta hann í nýtt og rétt samhengi. Við sköpum ekki listaverk með því einu að afneita möguleikum.

Það er ekki gamaldags í sjálfu sér að nota þríhljóm, og ekkert nútímalegt að nota stórar sjöundir eða litlar níundir. Það fer eftir því hvernig unnið er úr efniviðnum. Menn gerast ekki nútímaskáld með því einu að afheita rími og stuðlum. Fleira þarf til.

Ég gekk í gegn um tímabil þegar mér fannst ég verða að nota „gamla” þríhljóma. Aldrei var um neitt afturhvarf að ræða hjá mér. Þvert á móti. Ég notaði gamlan og þekktan efnivið á nýjan hátt.

Módernismi er vandmeðfarið hugtak og fyrir mér er hann spurning um gæði fremur en tíma. Það skiftir litlu máli hvort listaverk er skapað nokkrum árum fyrr eða síðar. Það eitt gerir ekki útslagið hvort listaverkið er nútímalegt eða gamaldags.

Í tónlistinni eru uppi ýmsir höfundar sem halda að þeir séu klassískir og hefðbundnir, jafnvel þjóðlegir, en eru bara gamaldags, útjaskaðir og úreltir.

9

Þegar heim kom tóku við erfið ár. Það tók mig nokkurn tíma að finna mér farveg, þar sem ég gat moðað úr þeim áhrifum sem ég hafði tekið inn í mig.

Ég átti í kreppu í nokkur ár, bæði listrænni og persónulegri. En eftir að ég var kominn af stað var ég óstöðvandi. Mér var illa tekið af tónlistarliðinu, krítíkerunum og menningarvitunum. En áheyrendur tóku mér vel og við nokkra fordómalausa og forvitna spilara átti ég góða samvinnu. Menningarkommarnir voru á móti tónlist minni því hún var algjörlega andstæð stefnu rússneska kommúnistaflokksins og dólgamarxisma hinna íslensku áhangenda hans. Og hinir borgaralegu sem réðu lögum og lofum á hægri kantinum hræddust og fordæmdu miðevrópska framúrstefnu. Þeir sáu í henni einhvers konar kommúnisma, en á þessum árum voru margir grunaðir um að vera laumukommar. Framsóknarmönnum allra flokka var alltaf illa við verk mín.

Sá eini úr tónlistarklíkunni gömlu sem ég kunni að meta var Páll ísólfsson. Ég kynntist honum vel, útsetti fyrir hljómsveit tvö verka hans. Páll var fyrst og fremst prýðilegur organisti, skipuleggjari og alþýðufræðari í orðsins bestu merkingu. Hann hafði upphaflega góða tónsmíðagáfu sem hann ræktaði ekki sem skyldi. Starfskraftar hans fóru í uppbyggingarstarf en ekki í nýsköpunarstarf í tónsmíðum.

Menningarheimurinn hér heima var innilokaður og íhaldssamur. Menn voru ánægðir með sjálfa sig, hældu hver öðrum upp í hástert, undu glaðir við sitt. Mér fannst mottóið vera: þursi ver sjálfum þér nægur.

Þegar ég kom heim frá námi kynntist ég vel Bohdan Wodiszco hljómsveitarstjóra, sem þá var að byggja upp Sinfóníuhljómsveitina. Heimamenn losuðu sig við hann á leiðinlegan hátt eins og fleiri afburðamenn sem hér hafa skarað fram úr. Sagt var að Bohdan hefði móðgað einhvern tónlistarstjóra í Útvarpinu. En Bohdan varð mér andlegur faðir og las yfir fyrir mig flest það sem ég samdi á þessum árum. Hann var hámenntaður snillingur með mikla yfirsýn. Hann hafði verið í þrælabúðum nasista, var ástríðufullur pólskur föðurlandsvinur og hafði komist í kast við þjóna Stalíns og hafði farið illa út úr því. Hann kom mér í kynni við pólska samtímatónlist og marga af mestu listamönnum Pólverja, en ég fór oft til Póllands á þessum árum. Bohdan var harður gagnrýnandi og sanngjarn. Hann taldi mig á að starfa á Íslandi og vinna úr lífi mínu og hæfileikum hér. Ég ætlaði nokkrum sinnum að flytja burt og starfa annars staðar. Hann sagði að ég hefði fundið eigin leið í völundarhúsi samtíma-tónlistar, og að tónlist mín væri íslensk umfram allt. „En ég nota aldrei þjóðlög” sagði ég. Hann útskýrði fyrir mér að hin sönnu þjóðlegheit væru ekki fólgin í því að taka gömul alþýðulög, hljómsetja þau að hætti Hindemiths, færa þau í hljómsveitarbúning að hætti Rimskí-Korsakoffs og gera einhverja ótímabæra kontrapúnkta með síflæðandi milliröddum úr þeim. Hið íslenska í verkum mínum væri litameðferðin, fjarlægðarskynið og formandstæðurnar. Alveg eins og í íslenskri sögu og landslagi.

Jón Nordal kenndi mér dálítið í tónsmíðum þegar ég var 18 ára. Ég bý enn að því, en verk Jóns höfðu engin áhrif á mig nema Píanókonsertinn, sem var mikil vítamínsprauta. En samt fannst mér þá, að mín leið myndi verða önnur. Jóni mæltist vel þegar hann sagði að maður ætti að semja tónlist sem væri í sátt við mann sjálfan. Það er mikil viska fólgin í þessari einföldu og látiausu staðhæfingu.

Sigvaldi Kaldalóns hafði mikil áhrif á mig, enda voru lögin hans hluti af uppeldi mínu. Og ég dáist enn að fyrirhafnarlausri laglínugáfu hans, andlegum heilindum og tilgerðarleysi. Kaldalóns hittir oft ósjálfrátt naglann á höfuðið. Þessi tónlist er merkilega fullkomin, þegar best lætur, á þröngu sviði sínu. Kannski var Kaldalóns alltaf að semja sama lagið. Þegar ég núna fletti sönglagaheftum hans níu að tölu, er ómögulegt að merkja nokkra breytingu á ferli hans. Hann stendur alltaf í stað, var raunar ansi mistækur, en snilldarverk er að finna í hverju hefti.

Jón Leifs hafði líka mikil áhrif á mig. Ég reyndi aldrei að stæla hann, en samdi stórt verk í minningu hans, stuttu eftir að hann lést. Jón bar höfuð og herðar yfir aðra tónlistarmenn hér um sína daga. Jón hafði meiri metnað fyrir hönd Íslands en aðrir. Og hann skapaði tónlist með íslenskum sérkennum, sem var ólík allri annarri tónlist. Honum tókst að tjá uppsafnaða þjáningu þjóðarinnar í gegnum margar aldir og kergju Íslendingsins. Stíll hans er svo persónulegur, að eftir að hafa hlustað í nokkrar sekúndur veit maður að verkið er eftir Jón og engan annan.

Starfsnautar hans, samtíma honum, létu sér nægja að stæla yfirborðslega „gömlu meistarana” og útvatna þá algjörlega í lapþunnri danskri beykiskógarrómantík. Verk Jóns heyrðust sjaldan, aftur á móti gengu miklar sögur af því hve fáránlegt verk Sögusinfónían þætti í útiöndum. Mér fannst alltaf að svokallaður almenningur tæki verkum Jóns vel, þá sjaldan þau heyrðust.

Andúðin kom frá tónlistarmönnum og menningarpáfum.

Ekki er ennþá búið að frumflytja öll hljómsveitarverk Jóns. Stjórn Sinfóníuhljómsveitar-innar hefur staðið sig skammarlega illa og aldrei sýnt Jóni þann sóma sem hann á skilið.

Áhugi manna á verkum Jóns Leifs hefur farið vaxandi erlendis, og svo segir mér hugur að það ævintýri sé rétt að byrja. Það voru Svíar sem riðu á vaðið, Dr. Carl-Gunnar Áhlen, menningarritstjóri, og BlS-útgáfan. Því miður hefur Hjálmar H. Ragnarsson spillt nokkuð fyrir málstað Jóns hér heima, með vanhugsuðum staðhæfingum. Það er vel hægt að láta Jón Leifs njóta sannmælis án þess að lítilsvirða aðra látna merkismenn.

Það tók mig langan tíma að átta mig á starfi Jóns og stöðu hans sem listamanns. Ég ritaði um hann minningargrein þegar hann dó og finnst flest rétt sem þar stendur.

Magnús Blöndal Jóhannsson mat ég mest kollega minna eftir að ég kom heim. Hann var eiginlega eina nútímatónskáldið á íslandi. Magnús var mikill brautryðjandi í tólftóni, tilviljanamúsik, raftónlist og mörgu öðru. Hann var fordómalaus, frumlegur og opinn, tilraunaglaður og frjór og kom manni alltaf á óvart. Verk hans vöktu verðskuldaða athygli erlendis en hér heima var hann ekki tekinn alvarlega. Það var alltaf eitthvað fínlegt við framúrstefnuverk Magnúsar, og hann var barnslega forvitinn í listinni. Tók alltaf nauðsynlega áhættu, en ef maður gerir það ekki hjakkar maður alltaf í sama farinu og versnar með tímanum ef eitthvað er.

Það var mér alltaf mikilvægt að vinna með flytjendum allt frá því er Ingvar Jónasson bað mig að semja fyrir sig víólukonsertinn Könnun. Eftir það vann ég með, og lærði af, mörgum frábærum flytjendum, sem ég samdi fyrir. Ingvar kenndi mér að skrifa fyrir strengjahljóðfæri og hann var frábær kennari. Ég lærði líka mikið af flautusnillingnum mikla Robert Aitken. Ruth L. Magnússon, Ilona Maros, Dorothy Dorow og Þorgerður Ingólfsdóttir kenndu mér að skrifa fyrir einsöngsraddir og kór.

En sumir snillingar vilja ekkert vinna með höfundum. Þeir spila bara allt sem fyrir þá er sett og kvarta aldrei. Þeir hljóðfæraleikarar sem lítið geta kvarta alltaf, alveg sama hvað þeir fá í hendur. Sama er að segja um söngvara. Þeir reyndu einhverjir að koma þeim orðrómi á kreik að nútímatónlist eyðilegði söngraddir. Það var bara til að breiða yfir getuleysi sitt að þeir héldu fram þessari firru.

Hið gamla er meðtekið gagnrýnislaust, en hið nýja er gagnrýnt með andúð, segir Adorno einhversstaðar.

10

Ég er sammála skoðunum Hanns Eislers um hlutverk listamannsins. Eisler var mikill kommi, gamall Schönbergsnemandi og tólftónamaður áður en hann fór að þjóna Flokknum í ríki verkamanna og bænda í Austur-Þýskalandi. Eisler var prýðilegt tónskáld, miklu betri en aðrir sem kenndu sig við þjóðfélagsraunsæi í tónlist. Eisler sagði að listamaðurinn ætti rétt á því að lifa í fílabeinsturni, í glæsilegri einangrun til þess að hann gæti skapað list framtíðarinnar, hin miklu verk sem seint yrðu skilin til fulls. En á stundum milli stríða, stigi hann niður úr fílabeinsturninum og dveldi meðal „venjulegs” fólks. Og þá væri hann ekkert of góður til að taka þátt í lífi þess og starfi, semja lítil lög fyrir áhugamenn og nemendur til þess að létta þeim lífsbaráttuna. Hjá Beethoven er Für Elise og Strengjakvartettinn ópus 131 tvær hliðar á sama peningnum.

Ég vann töluvert í leikhúsum fyrr á árum. Ég hafði nær alltaf gott af því. Þar lærði ég að semja óperur. Óperutónskáld verða að læra á sviðið. Það er ekki alltaf besta tónlistin sem gerir sig best á sviðinu. Í óperunni þarf rétta tónlist á réttum stöðum. Og það lærist ekki nema með því að vinna í leikhúsi og gera allt sem þarf.

Ég samdi nokkur lög í vísnastíl, og sum hver urðu vinsæl. Það er ekki nema ánægjulegt en ég vil ekki telja þau í hópi bestu eða merkustu verka minna. Þetta er eins og þegar skáld yrkir lausavísur, svona inn á milli. Það er gott að vera vinsæll en ekki nauðsyn.

Sjaldan hef ég skorast undan því að semja tækifæristónlist þegar ég hef álitið mig hafa eitthvað fram að færa; tónlist fyrir börn, áhugamenn, til kennslu og margt fleira. Það er enginn hlutur auvirðilegur sem unninn er af vandvirkni og alúð. Og menn eiga að vera fjölhæfir, það er hluti af fagmennskunni. Og margir fúskarar þykjast gera svonefnda alþýðutónlist og halda að hún sé þeim mun alþýðlegri eftir því sem hún er lélegri og frumstæðari. Það þykir fínt að snobba niður á við.

En ég hef gætt þess að láta þessi störf ekki trufla mig um of frá þeim verkum sem eru mér meira virði. En nokkrar af þessum vinsælu leikhúsvísum mínum markaðssettu sig sjálfar og mér finnst gaman að heyra fólk á öllum aldri syngja þær og leika.

11

Ég starfaði að félagsmálum listamanna, einkum tónskálda í rúman áratug, sem formaður Tónskáldafélags íslands.

Mér fannst þá að Íslendingar hefðu einangrað sig um of, og væru hræddir við að kynnast listastraumum samtímans. Ég ákvað að reyna að koma Íslandi á kortið. Við Þorkell Sigurbjörnsson stóðum fyrir því að hér var haldin alþjóðleg tónlistarhátíð ICNM – International Society of Contemporary Music árið 1973. Þar mættu framámenn tónlistar í heiminum og kynntust því sem við vorum að gera. Okkar spilarar voru mjög feimnir að koma fram, en ég lagði mikla áherslu á að þeir ynnu með erlendum starfsbræðrum og flyttu það sem efst var á baugi í samtímanum. Þetta gekk allt prýðilega.

Hátíðin var opnuð með Requiemi Jóns Leifs, sem Hamrahlíðarkórinn fiutti snilldarlega. Annars var allt apparatið á móti okkur Þorkeli Sigurbjörnssyni, sem stóð eins og klettur við hlið mér. Við mættum tortryggni og andúð á flestum stöðum. Menn vildu ekki neitt nýtt, en þorðu þó ekki að standa í vegi fyrir okkur.

Síðar skipulögðum við líka Norræna músikdaga, létum panta fullt af nýjum verkum erlendis frá handa flytjendum okkar til frumflutnings. Hingað var Kanadamönnum boðið, undir forystu Robert Aitkins, til að víkka út hinn skandinavíska sjóndeildarhring. Og loks stofnaði ég Myrka músikdaga, miðsvetrarhátíð okkar samtímatónlistar í trássi við öll máttarvöld. Þar hófum við nýja efnisskrárgerð, svonefnda portretttónleika og margt fleira. Ég held að allt þetta hafi fallið í góðan jarðveg, einkum hjá hinni ungu og uppvaxandi tónskáldakynslóð.

Félagsstörf eru tímafrek og vanþakklát. En þau eru eins konar herskylda listamannanna sjálfra. Það hjálpar þeim enginn, nema þeir sjálfir. Gervilistamenn, eða kommissarar, sem eru allsstaðar eins, reynast alltaf illa. Þeir vilja stjórna listinni í staðinn fyrir að þjóna henni. Eins og stjórnmálaflokkarnir.

Ég starfaði lítið í Musica Nova. Ég held að menn þar hafi ekki treyst mér enda engin ástæða til þess. Ég stóð fyrir mestu hneykslisuppákomu á íslandi þegar ég fékk hingað Kóreumanninn Nam Jun Paik og sellóleikarann Charlottu Moorman. Hún hafði samfarir við sellóið á sviðinu og hann beraði á sér bossann. Það voru allir mjög reiðir og ég var útlægur ger úr íslensku listalífi um langan tíma. Musica Nova baðst afsökunar á öllu saman og talaði um „rusl á öskuhaugum stórborganna” sem villst hefði hingað til lands. Það var víst Paik. Útnesjamennskan hefur löngum verið sterk í þjóð okkar. En þetta gerði ekkert til því Jón Gunnar Árnason stóð með mér, Hreinn Friðfinnsson, Erró, Þrándur Thoroddsen og svo auðvitað Dieter Roth.

Charlotta er látin en Paik er nú viðurkenndur einn mesti listamaður samtímans. Hann hefur þróast frá tónlist yfír í myndlist og vídeólist og fæst mikið við sjónvörp: vill eyðileggja miðilinn innanfrá. Hann býr í New York og Dússeldorf að ég held.

12

List er pólitísk, en ekki flokkspólitísk. List er líka annað og meira en pólitík. Á kaldastríðstímanum var mikið rætt um samband listar og pólitíkur og margt bullað. Íhaldið sagði að ef list væri pólitísk þá hætti hún að vera list og kommarnir sögðu að ópólitísk list væri ekki list.

Listamaðurinn endurspeglar það þjóðfélag sem hann lifir og hrærist í: kennir til í stormum sinnar tíðar. En þarmeð er sagan aðeins hálfsögð. List sem rís undir nafni lyftir sér líka yfir tímann og tengir aldirnar saman. Það er of mikil einföldun að segja að Mozart sé fulltrúi upplýsingartímans í Evrópu, verk hans séu afsprengi konungs einveldis. Verk Mozarts eru, eins og öll góð listaverk, betri og merkilegri en sá tími og þjóðfélag sem þau urðu til í.

13

Það var oft gaman að kenna. Það er mikil gæfa að fá að vera með ungu fólki. Ég hafði mikla ánægju af að taka þátt í og byggja upp framhaldsdeild við Tónlistarskólann í Reykjavík, deild tónsmíða og tónfræða. Á frumbýlingsárunum var einhver kraftur sem ég held að hafi horfið með árunum. Ég skipulagði árlega nemendatónleika þar sem flutt voru ný verk eftir sem flesta nemendur. Oftast fluttu nemendur sjálfir verkin. Og svo var töluverð samvinna milli listaskólanna allra, sem nemendur sáu að mestu leyti sjálfir um.

Nú halda menn að ungt fólk efni ekki til samvinnu, nema margir skólar séu undir sama þaki og sé stjórnað úr einni skrifstofu. Þetta voru aðalrökin fyrir sameiningu allra listaskólanna í einn.

Ég er þeirrar skoðunar að gagnslaust sé að kenna tónsmíðar ef nemendur fá ekki að heyra það markverðasta sem þeir setja á blað. Og þetta voru oft mjög athyglisverðir tónleikar, og geysileg vítamínsprauta í skólanum. Listin verður að vera spennandi og skemmtileg.

Menn undruðust að ekki skyldi vera kennd nein sérstök stefna í tónsmíðum, það kenndi ætíð margra grasa í afurðum nemenda minna. En ég var ekki að boða neina trú, eða þröngva minni stefnu upp á ungt fólk. Ég hafði orð Schönbergs að leiðarljósi: forða fólki frá vondri fagurfræði og gefa því gott handverk í staðinn.

Tónsmíðakennsla á að vekja hina músikölsku meðvitund, vera skapandi, en ekki hlýða tískustraumum, gömlum eða nýjum. Og kennslan á að spanna allt litróf stíltegunda frá uppákomum til nýrómantíkur. Og kennslan á að höfða til alls þess sem þegar hefur verið gert og um leið á hún að opna leiðir til hins nýja og óþekkta. Tónlist á að segja eitthvað nýtt, á skýran og ótvíræðan hátt, og má ekki falla í gryfju vanans. Mikið og víðfeðmt nám og elja liggur að baki góðri listsköpun, og fjölbreytni lífsins er efniviður listanna. Ekki frasar, kenningar og óhlutbundin hugtök. Handverkið og heimspekin á að vera eining, skilgreiningin og samantektin, vinna og hugsun. Þetta er erfitt að kenna.

Nýr höfundur á að endurnýja stíl, ekki með því að stæla hin eldri klassísku verk, heldur með því að samhæfa stílinn persónuleika sínum: búa til nýjan stíl.

14

Hér hafa orðir ótrúlegar framfarir í tónlistarflutningi. Ég þakka það Tónlistarskólanum í Reykjavík, sem undir forustu Jóns Nordals var sennilega besti skóli á landinu. Við eigum nú frábæra flytjendur, eins og t.d. Caput-hópinn og einstaka snillinga. Annað, eins og Sinfóníuhljómsveitin, er staðnað í meðalmennskunni eftir nokkurn fjörkipp nýlega.

Áður fyrr voru nýju íslensku tónverkin betri en flutningur þeirra og verkin liðu stundum fyrir það. Nú hefur þetta snúist við og flutningurinn er oftast miklu betri en verkin.

Þetta er raunar alls staðar svona. Ný kynslóð hljóðfæraleikara hefur tileinkað sér hinn nýja stíl. Hinir færustu hljóðfæraleikarar áður voru mjög hjálparlausir gagnvart nýjum verkum umbyltingaskeiðsins á sjötta áratugnum. Menn þekktu nóturnar, en vissu ekki merkingu þeirra.

Það er eins og að lesa upp kvæði á ókunnu máli. Maður þekkir bókstafina, veit jafnvel nokkurn veginn hvernig á að bera þá fram, en veit ekkert hvað textinn merkir, ekkert hvað kvæðið fjallar um. Við getum ímyndað okkur hvernig slíkur upplestur hljómar í eyrum þeirra sem málið skilja.

Hér finnast engir góðir tónlistargagnrýnendur því miður. Ég fékk oft vonda gagnrýni í gegnum tíðina, mest ónot sem ég svaraði aldrei. Hún braust oftast fram þegar mér gekk vel í starfi, hafði komið frá mér stórum verkum eða fékk einhverjar viðurkenningar erlendis. Það er eitt af mínum prínsíppum að svara aldrei gagnrýni hér á landi, til þess er hún á of lágu plani. Þó gerði ég nýlega undantekningu frá reglunni, vegna þess að ómaklega var verið að ráðast að samstarfsmönnum mínum.

Gagnrýnendur flestir eru illa ritfærir, illa menntaðir og öfundsjúkir. Engin samræða er möguleg að siðaðra manna hætti sem uppbyggileg má teljast. Og ég vil ekki, get ekki, farið niður á plan krítikera. En gagnrýnisnöldrið gerði mér ekkert til, nema síður sé.

Þjóðin tekur ekkert mark á gagnrýnendum. Hún veit sínu viti og listrænn kompás hennar er í lagi. Það var endalaust reynt að telja henni trú um að Halldór Laxness gæti ekki skrifað, Jón Leifs ekki kompónerað, Steinn Steinarr ekki ort, Svavar Guðnason ekki málað. En árangurslaust. Og reynt var að hefja meðalmennskuna og fúskið upp til skýjanna á kostnað snillinganna, en árangurslaust, og þar stóðu að verki helstu andans- og valdsmenn þjóðarinnar. Svo ég hef aldrei haft neinar áhyggjur. Þvert á móti. Þegar ég fer í taugarnar á gagnrýnendagenginu, er það mér vísbending um að ég sé á réttri leið.

Ég ákvað þegar ég kom heim frá námi að verða aldrei bitur hvernig sem allt færi. Bitur maður skapar ekki góða list. Og fátt er nöturlegra er bitrir listamenn, vonsviknir og vansælir, sem öfundin nagar. Ég held að mér hafi tekist þetta að mestu leyti: ég er oftast í góðu skapi.

Ég hef líka reynt að staðna ekki. Það er ótrúlegt hvað listamenn eru fljótir að staðna. Sumir virðast stefna að því að staðna sem fyrst. Þessir menn berjast fyrir litlu sæti, og verja það með kjafti og klóm ef einhver kemur of nálægt. Og menn rotta sig saman í klíkur og svo bítast klíkurnar um bitana. En þannig er þetta allsstaðar. Návígið er aðeins meira hér í fámenninu. Og stundum verður smávegis busl í andapollinum, en í rauninni kemur öllum vel saman og þar er hlýtt. Og allir eru jafn drullugir – það er að segja dálítið drullugir. Ekki mikið, bara soldið. Þetta er menningariífið hér.

Mér sárnaði þó einu sinni. Á mig var borið að ég mismunaði nemendum. Sagt var að þeir sem ekki aðhylltust „alþjóðlegan módernisma” fengju bágt fyrir, og væru látnir gjalda þess ef þeir kompónerðu öðru vísu músik en ég.

Maður er berskjaldaður gegn svona rógi. Nemendurnir hneyksluðust meira en ég. Og auðvitað vissi rógberinn betur, hann var í vanmætti sínum að reyna að koma höggi á mig.

15

Ég hef nokkrar meginreglur þegar ég kompónera. Ein er sú að hvert verk sé gjörólíkt því næsta á undan. Svo reyni ég að gera eins ólíkt því sem önnur tónskáld, hér heima og annarsstaðar, hafa verið eða eru að gera.

Debussy sagði: ég hugsa mér alla þá músik sem ég þekki og vel svo það besta úr. Þetta er hættuleg aðferð, en stundum áhrifarík.

Fúskaraliðið er af skiljanlegum ástæðum á móti frumleika. Reynir að rugla honum saman við fáránleika (sem á sér vissulega þegnrétt í listinni!) Segja að ekki sé hægt að vera frumlegur. En frumleiki er mjög sjaldgæfur og fáum gefinn – aðeins þeim útvöldu. Þeir sem ekki hafa frumleika ættu ekki að reyna að vera frumlegir.

Sérhvert listaverk er bæði sköpun og stæling, þetta tvennt blandast saman, í ýmsum hlutföllum. Sum verk eru aðeins stæling og þau eru ekki mikils virði. Svo er líka vandi að stæla. Sumar stælingar eru hörmulegar – aðrar listilega vel gerðar. Ég held að í öllum merkilegum listaverkum sé sköpunin nokkuð sterk svo og frumleikinn.

Einu sinni ræddi ég við norska tónskáldið Arne Nordheim um „ritþjófnað”. Hann sagði: „Þetta er allt í lagi. Þeir góðu stela frá þeim góðu og þeir vondu frá þeim vondu.”

Tveir starfsbræður mínir rifust af heift, eins og götustrákar, um 16 takta, tæpar 8 sekúndur, af kvikmyndabakgrunnstónlist. Annar þóttist hafa orðið fyrir æru- og eignartjóni, hinn sagðist mega nota almenningseignarbrotasilfur þó það væri eftir aðra. Úr þessu varð mikið mál, öllum þátttakendum til minnkunar, en fleiri létu til sín taka. Það hefur oft verið stolið frá mér, og mér er alveg sama. Ég er raunar ánægður, því eftir því sem meira er stolið frá mér, fæ ég fleiri hugmyndir. Svona er Guð góður við mig og aðra.

Í gamla daga voru tónskáld höfðingjar. Einu sinni henti það Pál Ísólfsson, – sem ekki var sérlega frumlegur og fór stundum óviljandi í smiðju til annarra – að láta frá sér lagstúf, sem líktist grunsamlega lagi eftir Þórarin Guðmundsson. Páll varð miður sín, þegar hann komst að þessu, hringdi í Þórarin og spurði hvort hann mætti nú samt ekki nota lagið. Og Þórarinn hnussaði, eins og hann var vanur, og sagði: „Það er alveg guðvelkomið, Páll minn, og ef þú getur notað fleira eftir mig þá mátt þú það gjarnan!” Þessir herramenn voru höfðingjar og húmoristar, en ekki hagsmunaaðilar og lögkrókamenn.

Í vor er leið var frumflutt verk eftir mig í Erkitíð og á eftir sat ég fyrir svörum og tók þátt í umræðum. Fyrsta spurningin var þessi: hvað hefur þú gert til að aðlaga verk þín kröfum markaðarins? Svarið var: ekkert. Og þá vildu menn vita hvað ég hefði gert til að falla áheyrendum í geð. Og svar mitt var hið sama og áður: ekkert.

Þetta vildu viðmælendur mínir ekki fallast á að gæti verið mögulegt; markaðurinn hlyti að ráða alltaf og allsstaðar, framboð og eftirspurn. Og byrjuðu að tala um Haydn gamla; hann hefði verið mjög háður markaðinum, hefði alltaf samið eftir pöntunum og þess vegna væri hann svona góður.

Það er erfitt að rökræða við óupplýsta dellumakara.

Ég hugsa um það eitt að gera góða tónsmíð, og geri það sem andinn blæs mér í brjóst. Ég get ekki tekið neitt meðaltal af smekk væntanlegra áheyrenda, ég veit ekki hvernig þeir eru, eða hverjir þeir eru og hvaða smekk þeir hafa.

Mitt er að yrkja, ykkar að skilja sagði gamli Gröndal. Og ég held að vænlegra sé til árangurs að láta markaðinn elta sig, heldur en að reyna að elta hann.

Ég reyni að einbeita mér og hlusta á raddir huga og hjarta úr innsta djúpi sálarinnar. Ekki á það sem utanaðkomandi aðilar æpa. Aðeins þannig held ég að unnt sé að fremja heiðarlega listsköpun.

Ég veit ekki hvernig góð tónlist á að vera nú á dögum. Alla vega er mér ókleift að lýsa því í orðum hér og nú. Víst mætti reyna en það er efni í aðra ritgerð.

Greinin birtist í Tímariti Máls og menningar 58. árgangur 1997, 4. tölublaði.

Leave a Reply